Fótbolti

Ísak Snær kom Rosen­borg á bragðið þegar liðið vann loks leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Snær sýndi góð tilþrif þegar hann kom Rosenborg yfir.
Ísak Snær sýndi góð tilþrif þegar hann kom Rosenborg yfir. Vísir/Getty Images

Eftir fimm leiki án sigurs vann Rosenborg loks sigur í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta þegar það heimsótti Vålerenga. Ísak Snær Þorvaldsson skoraði fyrsta mark leiksins sem endaði með 3-1 sigri Rosenborg.

Ísak Snær hóf leik sem fremsti maður og það tók hann aðeins 12 mínútur að setja mark sitt á leikinn þegar hann skoraði eftir undirbúning Jayden Nelson. Sá síðarnefndi hafði átt góðan sprett upp vinstri vænginn, Ísak Snær fékk boltann á ferðinni, tók góða snertingu og kláraði færið sitt frábærlega. Var þetta annað mark Ísaks í norsku deildinni.

Aðeins tveimur mínútum síðar hafði Nelson tvöfaldað forystuna fyrir gestina sem vissu vart hvað var í gangi enda ekki unnið leik heillengi.

Andrej Ilić minnkaði muninn fyrir heimamenn áður en fyrri hálfleik lauk, staðan 2-1 í hléinu. Heimamenn fengu vítaspyrnu í upphafi fyrri hálfleiks og gátu því jafnað metin en spyrna Stefan Strandberg fór forgörðum og Rosenborg enn í forystu.

Ole Sæter, sem hafði komið inn á fyrir Ísak Snæ, gerði svo út um leikinn með þriðja marki gestanna á 76. mínútu. Lokatölur leiksins 1-3 og Rosenborg nú með 33 stig í 10. sæti eftir 26 leiki. Vålerenga er með 24 stig og í bullandi fallbaráttu.

Samantekt úr leiknum má finna á Youtube-síðu TV 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×