Innlent

Á­fram­haldandi þensla við Þor­björn

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Fjallið Þorbjörn séð úr vestri, horft austur. Grindavík er þá hægramegin á myndinni en Bláa lónið vinstramegin.
Fjallið Þorbjörn séð úr vestri, horft austur. Grindavík er þá hægramegin á myndinni en Bláa lónið vinstramegin. Vísir/Vilhelm

Land heldur áfram að rísa umhverfis Þorbjörn og Svartsengi. Þetta staðfesta nýjustu gögn Veðustofunnar. Von er á nýjum gervihnattamyndum síðar í dag sem þó verður líklega ekki hægt að lesa úr fyrr en á morgun. 

Nýjustu gögn frá GPS mælaneti Veðurstofunnar umhverfis Þorbjörn og Svartsengi, staðfesta að landris sem hófst í fyrradag heldur áfram. Heldur hefur dregið úr jarðskjálftavirkni norðan Grindavíkur á síðastliðnum sólarhring og ekki eru sjáanlegar breytingar á dýpi skjálfta, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Þar er varað við því að á meðan á landrisi stendur geti jarðskjálftavirkni tekið sig upp aftur, með skjálftum sem fólk finnur vel fyrir.

Lítið að frétta fyrr en á morgun

Í samtali við fréttastofu segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvásérsfræðingur, að staðan sé svipuð í dag og í gær.

„Landris er svipað, gæti verið aðeins að hægja á því en það er líklega aðeins of snemmt að segja til um það.“

Ekkert bendi til þess að kvika sé að færast til, en nú sé beðið eftir nýjum myndum frá gervitunglum.

„Þegar þær koma getum við séð betur hvað er að gerast á öllu Reykjanesinu, en ég geri ekki ráð fyrir að við getum sagt frá þeim fyrr en á morgun. Þetta er flókin atburðarrás og í raun ekkert að frétta fyrr en á morgun, þá búumst við við uppfærðri stöðu,“ segir Hildur María.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×