Hún var skiljanlega svekkt á svip en sagðist stolt af liðinu og var ánægð að geta svarað fyrir slaka frammistöðu í síðasta leik gegn Þýskalandi.
„Gríðarlega svekkjandi að hafa ekki fengið neitt út úr þessu afþví mér fannst við spila vel. Er gríðarlega stolt af liðinu, hvernig við komum inn í þennan leik og svöruðum svolítið fyrir frammistöðuna sem við sýndum í leiknum þar á undan.“
Ísland reyndi fyrir sér nýtt leikkerfi sem virkaði vel lengst af. Danmörku tókst ekki að skapa sér mörg hættuleg færi og íslenska liðið varð yfirleitt ofan á í baráttunni um boltann.
„Fyrst og fremst bara hugarfarið [sem við breyttum frá síðasta leik], við vorum fastar fyrir og lömdum á þeim. Okkur tókst að finna svæðin sem við ræddum um fyrir leik, sýndum gæði þar og hefðum getað gert það oftar en ég er samt gríðarlega ánægð með liðið í dag.“
Með þessu tapi breikkar bilið töluvert til efstu liða. Ísland situr nú í þriðja sæti riðilsins í Þjóðadeildinni með Þýskaland og Danmörku fyrir ofan sig en Wales fyrir neðan. Ólíklegt er að efstu tvö sætin séu möguleiki en mikilvægt er fyrir Ísland að halda sér í þriðja sætinu svo þær falli ekki niður í B-deild.
„Markmiðið okkar er að halda okkur í A-deild, þar spilum við við bestu liðin og það er það sem við viljum. Fá svona leiki eins og í dag þar sem við þurfum að vera með 100% einbeitingu allan tímann. Við viljum klárlega halda okkur uppi.“
Það er stutt í næsta leik en íslenska liðið tekur á móti Þýskalandi á þriðjudaginn kemur og gefst færi á að hefna 4-0 tapið í síðustu viðureign liðanna.
„Það var bara fullur fókus á þennan leik. Nú förum við bara upp á hótel í endurheimt, förum yfir það sem við gerðum vel í dag og hvað er hægt að gera betur. Svo byrjum við að einbeita okkur að Þýskalandi“ sagði Glódís að lokum.