Innlent

Dæmdur fyrir að skalla lög­reglu­mann

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í október á síðasta ári.
Árásin átti sér stað í október á síðasta ári. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 45 daga fangelsi fyrir að hafa skallað lögreglumann eftir að hafa verið handtekinn í október á síðasta ári.

Maðurinn var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni, en hann hafði verið handtekinn og færður í lögreglubíl og síðar skallað lögreglumanninn í höfuðið þannig að sá hlaut væg eymslu á hægra gagnauga.

Í dómi kemur fram að maðurinn hafi játað brot sitt skýlaust og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst brotlegur við refsilög.

Við ákvörðun refsingar mat dómari játningu mannsins til málsbóta auk þess að tillit var tekið til persónulegra aðstæðna mannsins sem nánar greindi í læknisvottorði. Á móti var horft til refsiþyngingar að lögreglumaðurinn hafi meiðst og árásin beinst að höfði og þar með talin til þess fallin að vera hættuleg.

Dómari mat hæfilega refsingu vera 45 daga fangelsi en fresta skal fullnustu hennar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talið þóknun til skipaðs verjanda, samtals um 340 þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×