Fótbolti

Glaður að sjá Gylfa á nýjan leik: „Gott að sjá hann brosa“

Aron Guðmundsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson er ánægður með að sjá Gylfa Þór Sigurðsson aftur í landsliðinu.
Guðlaugur Victor Pálsson er ánægður með að sjá Gylfa Þór Sigurðsson aftur í landsliðinu. Vísir/Samsett mynd

Guð­laugur Victor Páls­son, leik­maður ís­lenska lands­liðsins í fót­bolta, segir liðið vilja svara fyrir „stór­slysið“, sem átti sér stað í fyrri leik liðsins gegn Lúxem­borg í undan­keppni EM, í komandi leik liðanna. Þá segir hann það gefa liðinu mikið að Gylfi Þór Sigurðs­son sé mættur aftur í lands­liðið.

„Ég er búinn að koma mér mjög vel fyrir og þetta hefur farið svona upp og ofan af stað. Við byrjuðum vel en svo er smá bras á okkur núna. En ég hef fulla trú á þessu verk­efni. Mér líður vel þarna. Þetta er frá­bært fé­lag með góðan þjálfara og leik­manna­hóp. Ég er mjög bjart­sýnn,“ sagði Guð­laugur Victor um tíma sinn til þessa hjá belgíska liðinu KAS Eupen og fram­haldið þar.

Guð­laugur Victor var áður á mála hjá D.C. United, liði Was­hington­borgar í Banda­ríkjunum og því voru við­brigðin mikil að skipta yfir til liðs í Belgíu.

„Mjög mikil. Að fara frá Was­hington D.C. og vera núna kominn út í sveit í Belgíu. En það er mjög fínt.“

Klippa: Vilja svara fyrir stór­slysið

Guð­laugur Victor er ekki eini Ís­lendingurinn á mála hjá KAS Eupen. Þar má einnig finna lands­liðs­fram­herjann Al­freð Finn­boga­son sem skipti yfir til Belgíu frá Ís­lendinga­liði Lyng­by í dönsku úr­vals­deildinni í síðasta leik­manna­glugga.

„Það er frá­bært að hafa Al­freð með sér í þessu. Frá­bært að hann skildi hafa komið. Við erum búnir að vera góðir vinir í mörg ár.“

Fram­undan eru tveir heima­leikir hjá ís­lenska lands­liðinu í undan­keppni EM 2024. Leikir gegn Lúxem­borg og Liechten­stein.

Leikurinn við Lúxem­borg kemur fyrst og eiga ís­lensku leik­mennirnir harma að hefna eftir 3-1 tap í fyrri leik liðanna. Guð­laugur Victor segir menn vilja svara fyrir þau úr­slit í komandi leik liðanna.

„Ég sagði það eftir leikinn og segi það bara enn og aftur að þessi leikur var eitt stór­slys. Við sýndum það strax í næsta leik, gegn Bosníu, með flottum úr­slitum og spila­mennsku.

Við þurfum að vinna þennan komandi leik gegn Lúxem­borg og þurfum að sýna öllum að þetta hafi bara verið slys.“

Það bárust stór­tíðindi úr her­búðum liðsins þegar leik­manna­hópurinn fyrir komandi verk­efni var opin­beraður. Gylfi Þór Sigurðs­son, einn besti fót­bolta­maður Ís­lands frá upp­hafi, snýr aftur í lands­liðið og gæti leikið sinn fyrsta lands­leik í tæp þrjú ár.

Guð­laugur Victor er á­nægður með að sjá Gylfa aftur í lands­liðinu, hann gefi liðinu mikið.

„Gylfi er náttúru­lega bara einn af okkar bestu mönnum. Það frá­bært fyrir hann og frá­bært fyrir okkur að hann sé kominn aftur. Gylfi gefur okkur ó­trú­lega mikið innan sem utan vallar. Það er gott að sjá hann inn á knatt­spyrnu­vellinum á nýjan leik. Það er gott að sjá hann brosa, gott að sjá hann í góðum gír.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×