Erlent

Hlýtur friðar­verð­laun Nóbels fyrir bar­áttu gegn kúgun kvenna í Íran

Atli Ísleifsson skrifar
Hin íranska Narges Mohammadi afplánar nú dóm í fangelsi vegna baráttu sinnar gegn kúgun kvenna í Íran.
Hin íranska Narges Mohammadi afplánar nú dóm í fangelsi vegna baráttu sinnar gegn kúgun kvenna í Íran. Getty

Íranska baráttukonan og mannréttindafrömuðurinn Narges Mohammadi hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár. Hún hlýtur verðlaunin fyrir baráttu sína gegn kúgun kvenna í Íran og baráttu fyrir mannréttindum og frelsi allra.

Frá þessu greindi Berit Reiss-Andersen, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, á fréttamannafundi sem hófst klukkan níu.

Í rökstuðningi nefndarinnar segir að barátta hennar hafi kostað hana mikið persónulega. Írönsk yfirvöld hafa handtekið hana þrettán sinnum, hún hafi verið dæmd fimm sínnum og hafi hún alls verið dæmd í 31 árs fangelsi og að þola 154 svipuhögg. Hún situr nú í fangelsi.

Narges Mohammadi hefur barist gegn klerkastjórninni í Íran um margra áratuga skeið. Hún hefur barist gegn dauðarefsingum í landinu og þeirri skyldu fyrir konur í landinu að bera hijab. Hún hefur neitað að láta af baráttu sinni þó að hún sitji nú á bak við lás og slá.

Mohammadi hefur ekki hitt börn sín í heil átta ár, enda hefur hún þurft að dúsa í fangelsi síðustu ár og viðurkennir að fátt bendi til að henni verði sleppt á næstunni.

Hin 51 árs Mohammadi var fyrst handtekinn vegna baráttu sinnar þegar hún var 22 ára gömul.

Hún fæddist í Zanjan í norðvesturhluta landsins árið 1972 og stundaði nám í eðlisfræði áður en hún hlaut gráðu sem verkfræðingu. Síðar gerðist hún blaðamaður og vann þá á dagblöðum þar sem talað var fyrir umbótum í landinu.

Að neðan má sjá blaðamannafund norsku Nóbelsnefndarinnar í morgun.

Friðarverðlaun Nóbels verða formlega afhent í Osló í Noregi þann 10. desember næstkomandi. Er um að ræða einu verðlaunin sem afhent eru þar á meðan hin eru afhent í Stokkhólmi í Svíþjóð. 

Hvítrússneski baráttumaðurinn Ales Bialiatski, rússnesku mannréttindasamtökin Memorial og úkraínsku mannréttindasamtökin Miðstöð um borgararéttindi hlutu í sameiningu friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári.

Tilkynnt um handhafa Nóbelsverðlauna 2023

  • Mánudagur 2. október: Lífefna- og læknisfræði
  • Þriðjudagur 3. október: Eðlisfræði
  • Miðvikudagur 4. október: Efnafræði
  • Fimmtudagur 5. október: Bókmenntir
  • Föstudagur 6. október: Friðarverðlaun Nóbels
  • Mánudagur 9. október: Hagfræðiverðlaun Seðlabanka Svíþjóðar

Tengdar fréttir

Fá Nóbelinn fyrir til­raunir sínar með ljós

Fransk-bandaríski eðlisfræðingurinn Pierre Agostini, ungversk-bandarísku eðlisfræðingurinn Ferenc Krausz og sænsk-bandaríski eðlisfræðingurinn Anne L'Huillier hlutu í morgun Nóbelsverðlaun í eðlisfræði fyrir rannsóknir sínar með ljós sem fanga „hin skemmstu augnablik“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×