Innlent

For­dæma upp­sagnir og krefjast þess að ráð­herra axli á­byrgð

Árni Sæberg skrifar
Starfsfólk Grundarheimilanna í Hveragerði vill halda störfum sínum.
Starfsfólk Grundarheimilanna í Hveragerði vill halda störfum sínum. Efling

Trúnaðarráð Eflingar fordæmir harðlega fjöldauppsagnir sem beinast gegn Eflingarfélögum á starfsstöðvum Grundarheimilanna í Hveragerði . Trúnaðarráð krefst þess að uppsagnirnar verði dregnar til baka.

Þetta segir í ályktun trúnaðarráðsins, sem samþykkt var á fund þess í kvöld. Starfsfólki Grundarheimilana var boðið á fundinn sem heiðursgestum.

Þar segir að uppsagnirnar, sem sagðar eru grimmileg aðgerð, þýði að vel á þriðja tug Eflingarfélaga, sumir með meira en þrjátíu ára starfsreynslu, muni missa vinnuna. Þeir muni horfa upp á störfin sín lenda í höndum einkarekinna þrifafyrirtækja sem bjóði starfsfólki verri kjör og réttindi.

„Með þessu hyggjast Grundarheimilin koma sér hjá að veita starfsfólki sínu dýrmæt réttindi tengd veikindum, orlofi og uppsagnarvernd sem verkafólk hefur barist fyrir og áunnið sér á liðnum áratugum.“

Svívirðilegt brot á verkafólki

„Trúnaðarráð lýsir djúpri hneykslun á því að stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé skuli brjóta með þessum svívirðilega hætti á verkafólki og stunda þannig í reynd félagsleg undirboð í sinni ógeðfelldustu mynd,“ segir í ályktuninni. Þá er þess krafist að heilbrigðisráðherra axli ábyrgð á þessari þróun.

Trúnaðarráð styðji starfsfólk Grundarheimilanna heils hugar og lýsi aðdáun á baráttu þeirra. Allar dyr félagsins standi þeim opnar og engu ver'i til sparað til að knýja á um þá kröfu að uppsagnirnar verði dregnar til baka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×