Fótbolti

Sjáðu Svein Aron leggja upp og brenna af dauða­færi fyrir opnu marki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveinn Aron byrjaði frammi að venju.
Sveinn Aron byrjaði frammi að venju. Twitter@IFElfsborg1904

Sveinn Aron Guðjohnsen kom svo sannarlega við sögu í 2-1 sigri Elfsborg á Varberg í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Gestirnir í Varberg komust yfir á 19. mínútu en þegar rúmur hálftími var liðinn gerði Sveinn Aron vel í því að ná stjórn á fyrirgjöf frá hægri og pota boltanum fyrir markið þar sem Jeppe Okkels gat ekki annað en skorað.

Skömmu síðar fékk Sveinn Aron sannkallað dauðafæri til að koma Elfsborg yfir en náði ekki nægilega góðri snertingu á boltann þegar hann var fyrir opnu marki.

Sem betur fer kom það ekki að sök þar sem Okkels skoraði það sem reyndist sigurmarkið á 43. mínútu eftir að Elfsborg fékk vítaspyrnu. Lokatölur 2-1 Elfsborg í vil sem þýðir að liðið er aðeins stigi á eftir Malmö, sem vann 2-1 sigur á Brommapojkarna í kvöld, þegar fimm leikir eru til loka tímabilsins.

Sveinn Aron var tekinn af velli á 85. mínútu leiksins á meðan Hákon Rafn Valdimarsson stóð vaktina í marki frá upphafi til enda og Andri Fannar Baldursson lét til sín taka á miðjunni. Andri Fannar spilaði allan leikinn og nældi sér í gult spjald á 80. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×