Fótbolti

Sverrir Ingi hafði betur í Ís­lendinga­slagnum

Siggeir Ævarsson skrifar
Sverrir Ingi í leiknum í dag
Sverrir Ingi í leiknum í dag Twitter@fcmidtjylland

Sverrir Ingi Ingason og félagar í Midtjylland gerðu góða ferð til Kaupamannahafnar í dag þar sem liðið lagði heimamenn í FC København með tveimur mörkum gegn engu.

Sverrir Ingi var í byrjunarliði Midtjylland í vörninni og uppskar gult spjald á 52. mínútu. Hann fór svo af velli á 81. mínútu en Sverrir er óðum að komast í gang eftir meiðsli. Orri Steinn Óskarsson var í fremstu víglínu FCK en náði ekki að setja mark sitt á leikinn og var skipt af velli á 61. mínútu.

Gestirnir komust í 0-2 á 71. mínútu með marki frá Oliver Sørensen en undir lok leiksins var hann stöðvar vegna uppákomu í stúkunni. Óskýrar fréttir hafa borist af því hvað nákvæmlega gerðist en svo virðist sem að áhorfandi hafi þurft á læknisaðstoð að halda.

Fleira markvert gerðist ekki eftir að leikurinn fór loks aftur af stað þrátt fyrir að tíu mínútum hafi verið bætt við leiktímann og Midtjylland fóru með öll þrjú stigin heim. FCK sitja þó enn á toppi deildarinnar, með 22 stig eftir tíu umferðir. Midtjylland fara í 17 stig með sigrinum en sitja þó áfram í 5. sæti, stigi á eftir Bröndby og Nordsjælland sem eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×