Innlent

Ekki megi taka evruna út fyrir sviga

Bjarki Sigurðsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður VG. Vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir að upptaka evru leysi ekki öll vandamál Íslands. Henni fylgi allir kostir og gallar þess að ganga í Evrópusambandið. Taka þurfi umræðuna heildstætt og ekki taka gjaldeyrismálin ein út fyrir sviga. 

Síðustu daga hafa ýmsir kallað eftir upptöku evrunnar, þar á meðal Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins, en hann hefur í mörg ár verið talsmaður krónunnar. Það sem fékk hann til að skipta um skoðun var að eigin sögn okurvextir, verðtrygging og fákeppni sem bitni á neytendum og heimilum landsins.

Greip formaður Viðreisnar orð Vilhjálms fyrr í vikunni og ræddi þau á þingi. Skoraði hún á ríkisstjórnina að meta stöðuna fyrir heimilin í landinu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist skilja það að umræðan sé komin enn og aftur í gang, þá sérstaklega eftir að verðbólgan jókst enn og aftur í síðasta mánuði.

„Ég vil bara minna á það að taka upp evru felur í sér stærri ákvörðun. Það snýst um að ganga í Evrópusambandið með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja. Ég held að það megi ekki einangra þetta mál eingöngu við gjaldmiðilinn. Við þurfum þá að taka umræðuna heildstætt hvað það felur í sér. Þar er nú mín afstaða óbreytt og minnar hreyfingar um að við teljum að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins,“ segir Katrín. 

Hún segir horfurnar í efnahagsmálum vera ágætar.

„Áfram eru allar vísbendingar um að verðbólgan muni lækka á komandi mánuðum. Þannig ég vil ítreka það að ég tel að forsendur til þess að fara að lækka vexti muni skapast á næstu mánuðum eftir því sem verðbólgan fer niður,“ segir Katrín. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×