Innlent

Þurfa ekki að óttast að vera hand­tekin í skýlinu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þórir Hall Stefánsson er forstöðumaður fjöldahjálparmiðstöðva hjá Rauða krossinum.
Þórir Hall Stefánsson er forstöðumaður fjöldahjálparmiðstöðva hjá Rauða krossinum. Vísir/Einar

Nýtt neyðarskýli Rauða krossins fyrir þjónustusvipta hælisleitendur opnaði í dag. Umsjónarmaður fjöldahjálpar segir notendur skýlisins ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að vera handteknir mæti þeir á svæðið.

Neyðarskýlið er rekið af Rauða krossinum í gegnum samning við félags- og vinnumálaráðuneytið. Geta þeir sem hafa fengið synjun um alþjóðlega vernd og verið þjónustusviptir leitað þangað. Er skýlið, að minnsta kosti fyrst um sinn, opið frá klukkan fimm síðdegis til klukkan tíu á morgnanna.

Þórir Hall Stefánsson, umsjónarmaður fjöldahjálparmiðstöðva hjá Rauða krossinum, segir það óvíst hversu margir koma til með að nýta sér skýlið en á sjöunda tug er boðið að gera það.

„Við getum ekki sagt mikið til um hversu margir úr þessum hópi munu koma til okkar eða hvort einhver komi yfir höfuð. Þetta er svo sem bara úrræði sem stendur þeim til boða og við treystum á samstarfið við aðra sem koma orðinu áleiðis til einstaklinga og gera þeim það kunnugt að við erum hér og fólk er velkomið,“ segir Þórir.

Fréttastofu hefur borist ábendingar um að þjónustusvipta fólkið þori ekki að mæta í neyðarskýlið af ótta við að vera handtekið þar. Þórir segir þær áhyggjur ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

„Við hugsum þetta úrræði út frá þörfum notendanna. Við getum ábyrgst það að þau eru alveg örugg og í góðu skjóli hjá okkur. Það er ekki tilgangurinn með þessu úrræði að koma einhverjum í hendur lögreglunnar, við getum alveg ábyrgst það,“ segir Þórir.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×