Fótbolti

Þrjú rauð er Atlético Madrid hafði betur gegn Osasuna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dómari leiksins hafði í nægu að snúast í leik kvöldsins.
Dómari leiksins hafði í nægu að snúast í leik kvöldsins. Jose Breton/Pics Action/NurPhoto via Getty Images

Atlético Madrid vann sinn annan deildarleik í röð er liðið lagði Osasuna á útivelli í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld, 0-2.

Antoine Griezmann kom gestunum á bragðið um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan því 0-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Í síðari hálfleik var mikill hiti í mönnum og fyrsta rauða spjald leiksins fór á loft á 78. mínútu. Jagoba Arrasate, þjálfari Osasuna fékk þá að líta beint rautt spjald fyrir munnsöfnuð og aðeins þremur mínútum síðar stráði varamaðurinn Rodrigo Riquelme salti í sár Osasuna með því að tvöfalda forystu gestanna.

Látunum var þó ekki loki því að á 85. mínútu lenti þeim Chimy Avila og Alvaro Morata saman eftir að sá síðarnefndi hafði fellt Avila. Morata fékk að líta gula spjaldið fyrir brotið og tvímenningarnir fengu svo báðir að fara í snemmbúna sturtu með sitt rauða spjaldið hvor.

Niðurstaðan varð að lokum 0-2 sigur Atlético Madrid sem nú situr í fimmta sæti spænsku úvalsdeildarinnar með 13 stig eftir sex leiki, sex stigum meira en Osasuna sem situr í 14. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×