Fótbolti

Alonso tekur við Real Madrid eftir tímabilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Xabi Alonso þykir hafa unnið gott starf hjá Bayer Leverkusen.
Xabi Alonso þykir hafa unnið gott starf hjá Bayer Leverkusen. getty/Lars Baron

Xabi Alonso tekur við Real Madrid af Carlo Ancelotti fyrir næsta tímabil. Spænskir fjölmiðlar, þar á meðal Marca, greina frá þessu.

Alonso hefur gert góða hluti með Bayer Leverkusen síðan hann tók við liðinu fyrir ári. Á síðasta tímabili endaði Leverkusen í 6. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og komst í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Strákarnir hans Alonos hafa bætt í á þessu tímabili og eru jafnir Bayern München á toppi þýsku deildarinnar.

Áður en Alonso tók við Leverkusen var hann þjálfari varaliðs Real Sociedad um þriggja ára skeið. Þrátt fyrir litla reynslu sem þjálfari hafa forráðamenn Real Madrid ákveðið að hann taki við liðinu eftir þetta tímabil.

Ancelotti hefur stýrt Real Madrid frá 2021 en búist er við því að hann stígi til hliðar þegar samningur hans við félagið rennur út eftir þetta tímabil. Búist er við því að Ancelotti taki við brasilíska landsliðinu.

Alonso lék með Real Madrid um sex ára skeið og varð Spánarmeistari með liðinu 2012 og Evrópumeistari 2014, einmitt undir stjórn Ancelottis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×