Fótbolti

Segir Messi ekki segja rétt frá

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi sér hlutina ekki sömu augum og Nasser Al-Khelaifi.
Lionel Messi sér hlutina ekki sömu augum og Nasser Al-Khelaifi. AP/Jorge Saenz

Nasser Al-Khelaifi, stjórnarmaður Paris Saint-Germain, segir Lionel Messi sé ekki að segja rétt frá þegar sá argentínski talar um það að Messi hafi verið sá eini sem fékk ekki viðurkenningu frá félaginu sínu fyrir að verða heimsmeistari í Katar í fyrra.

Messi sagði frá því í nýlegu viðtali við ESPN að allir aðrir leikmenn argentínska heimsmeistaraliðsins hafi verið heiðraðir af félaginu sínu nema hann.

Messi skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum og tók við heimsbikarnum í leikslok. Hann var kosinn besti leikmaður keppninnar.

Al-Khelaifi segir þetta rangt en Messi yfirgaf PSG í sumar þegar samningur hans rann út. Samstarf Messi og PSG endaði ekki vel og margir stuðningsmenn franska félagsins sýndu einum besta knattspyrnumanni sögunnar litla virðingu.

„Það eru margir að tala um þetta út í heimi. Ég veit ekki hvað hann sagði eða hvað hann sagði ekki. Eins og allir sáu, af því að við birtum myndband af því, þá fögnuðum við Messi á æfingu og við fögnuðum honum einnig á bak við tjöldin,“ sagði Nasser Al-Khelaifi.

PSG heiðraði Messi aftur á móti ekki sérstaklega inn á leikvangi félagsins sem var væntanlega það sem Messi var að vísa til. Al-Khelaifi varði þá ákvörðun.

„Með fullri virðingu þá erum við franskt félag. Það var því mjög viðkvæmt fyrir okkur að fagna honum inn á leikvanginum. Við verðum að bera virðingu fyrir þjóðinni sem hann vann, liðfélögum hans sem spiluðu með franska landsliðinu og stuðningsmönnunum,“ sagði Al-Khelaifi.

Messi fór frá Frakklandi til Bandaríkjanna og samdi við Inter Miami.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×