Innlent

Átján störf fylgja varðskipinu Freyju á Siglufirði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
 Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sem er mjög ánægð með að varðskipið Freyja sé með sína heimahöfn á Siglufirði.
Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sem er mjög ánægð með að varðskipið Freyja sé með sína heimahöfn á Siglufirði. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mikil ánægja er á meðal íbúa á Siglufirði að varðskipið Freyja sé þar með heimahöfn því það tryggir átján störf á svæðinu. Þá segir bæjarstjórinn að það sé mjög mikilvægt að varðskip skuli eiga heimahöfn úti á landi, ekki bara í Reykjavík.

Það var laugardaginn 6. nóvember 2021, sem varðskipið Freyja lagðist að bryggju á Siglufirði eftir fimm daga siglingu frá Rotterdam og því eru að verða tvö ár liðin frá þessum sögulega viðburði. Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, sem er með skrifstofu sína á Siglufirði segir frábært að hafa Freyju á staðnum og að varðskipið veki alltaf mikla athygli ferðamanna í sinni heimahöfn á Siglufirði.

„Og við vorum ákaflega glöð þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna ákvað að Freyja skildi hafa heimahöfn hér á Siglufirði og höfum tekið því fagnandi og búið til góða aðstöðu fyrir hana hérna. Og það er stefnt að því að áhöfnin verði að mestu héðan að norðan þannig að það gengur ágætlega að uppfylla það en það er lögbundið að það skuli vera átján manna áhöfn á varðskipum svo við viljum hafa eitt svona Norðanvarðskip og annað Sunnanvarðskip til að gæta öryggi landsins og við höfum átt sérstaklega gott samstarf við Landhelgisgæsluna,“ segir Sigríður.

Varðskipið vekur alltaf mikla athygli á Siglufirði, ekki síst ferðamanna, sem heimsækja bæjarfélagið.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sigríður segir að heimahöfn skipsins á Siglufirði hafi mjög mikla þýðingu.

„Já, þetta hefur bara mjög mikið að segja, bæði út frá öryggissjónarmiði sem og líka að bjargir landsins og öryggissjónarmið sé ekki bara í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×