Innlent

Líður eins og hún hafi verið notuð af Há­skóla Ís­lands

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lára Þorsteinsdóttir hefur verið ötul baráttukona fyrir því að aukið við sé námsframboð fyrir fatlaða í Háskóla Íslands. Hún segir Háskóla Íslands ekki viðurkenna einingar hennar fyrir áfanga sem hún náði.
Lára Þorsteinsdóttir hefur verið ötul baráttukona fyrir því að aukið við sé námsframboð fyrir fatlaða í Háskóla Íslands. Hún segir Háskóla Íslands ekki viðurkenna einingar hennar fyrir áfanga sem hún náði. Facebook

Lára Þorsteinsdóttir, 24 ára kona með einhverfu, segir Háskóla Íslands neita sér um einingar fyrir námskeið sem hún tók og náði. Lára komst inn í háskólann í fyrra en finnst hún hafa verið notuð til að háskólinn gæti skreytt sig fjöðrum fjölbreytileikans.

Lára hefur undanfarin ár verið ötul baráttukona fyrir auknu námsframboði fyrir fatlaða við Háskóla Íslands. Hún greindi frá samskiptum sínum við Háskólann í færslu á Facebook í kvöld.

Í færslunni segist Lára aldrei hafa beðið um neinn afslátt vegna einhverfu sinnar heldur vilji hún einungis að háskólinn viðurkenni að hún hafi lokið fögunum tveimur þar sem hún stóðst öll próf. Henni líður eins og hún hafi verið notuð af skólanum til að hann gæti virst vera fyrir fatlaða.

Aldrei beðið um afslátt en vill sanngirni

„Jæja Háskóli Íslands, er þetta jafnrétti? Ég fékk að taka tvö námskeið í sagnfræðinni í Háskólanum í fyrra þegar ég var í diplómanámi fyrir fatlaða og hélt að ég væri komin inn í BA-nám í sagnfræði,“ segir í færslunni. En það var ekki svo. 

„Þegar ég ætlaði að skrá mig í námskeið í haust þá var mér sagt að ég hefði aldrei verið skráð í sagnfræðina. Heldur hefði ég fengið undanþágu til að taka tvö námskeið og það er ekki allt, því að mér er sagt að ég fái ekki einu sinni einingar fyrir þessi tvö fög þótt að ég hafi gert allt sem krafist var af mér, af því að ég var í diplómanámi við Háskólann sem skólinn tekur ekki gilt,“ segir hún í færslunni.

„Ég hef aldrei beðið um neinn afslátt þótt ég sé einhverf en ég vil að Háskólinn viðurkenni að ég hafi lokið þessum tveimur fögum og fái einingar eins og allir hinir sem voru með mér því ég stóðst prófin,“ segir hún síðan.

Finnst hún hafa verið notuð

Lára segir að sig vanti einhverjar einingar til að fá undanþágu til að sækja um BA-nám. Hún er þó ekki viss um að hún vilji sækjast eftir því eftir allt sem á undan hefur gengið. Hún segir háskólann hafa pirrað ranga konu því hún muni ekki sætta sig við þessa niðurstöðu.

„Mér skilst að mig vanti einhverjar einingar til að standast fullkomlega að fá undanþágu til að sækja um BA námið í sagnfræði í Háskólanum því ég er ekki með fullgilt stúdentspróf en það er allt og sumt og ég er ekki viss um að mig langi að leggja það á mig, ég er svo reið og sár. Ég var bara notuð finnst mér til að Háskólinn gæti sagst vera gera eitthvað fyrir fatlaða en það var bara kjaftæði, þetta er ekkert jafnrétti,“ segir hún í færslunni.

„Háskólinn pirraði ranga konu af því að þetta óréttlæti mun ég ekki sætta mig við,“ segir hún að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.