Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins rákust þar tvö ökutæki saman. Einungis ökumenn voru í ökutækjunum tveimur.
Slysið varð á mótum Lækjargötu og Vonarstræti, en lögregla hefur girt af svæði í kringum slysstað.
Sjúkrabílar mættu á staðinn upp úr klukkan 13:30.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem send var á fjölmiðla skömmu fyrir klukkan 14, segir að um alvarlegt slys hafi verið að ræða.
„Viðbragðsaðilar eru við störf á vettvangi, en lokað er fyrir umferð við slysstaðinn og í næsta nágrenni hans.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningunni.


