Umfjöllun og viðtal: Ísland - Tékkland 2-1 | Draumamark Andra Fannars tryggði íslenskan sigur

Hjörvar Ólafsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen skoraði fyrra mark Íslands í leiknum.
Andri Lucas Guðjohnsen skoraði fyrra mark Íslands í leiknum. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri lagði Tékkland að velli með tveimur mörkum gegn einu þegar liðin mættust í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2025 skipuðu leikmönnum U-21 árs og yngri í Víkinni í dag.

Ísak Andri Sigurgeirsson lagði upp mark Andra Lucasar. Vísir/Hulda Margrét

Andri Lucas Guðjohnsen kom Íslandi yfir með marki sínu undir lok fyrri hálfleiks. Stjörnumennirnir Eggert Aron Guðmundsson og Ísak Andri Sigurgeirsson unnu þá vel saman og Ísak Andri fann liðsfélaga sinn hjá Norrköping, Andra Lucas sem kláraði færið af stakri prýði. 

Andri Lucas í baráttunni við leikmenn tékkneska liðsins. Vísir/Hulda Margrét

Eftir að hafa sýnt aga og vinnusemi í varnarleik sínum og átt fín upphlaup til þess að bæta öðru markinu við fékk íslenska liðið blauta tusku í andlitið þegar Tékkar jöfnuðu metin þegar skammt var eftir af venjulegum leiktíma. 

En þá var komið að þætti Andra Fannars Baldursson sem tryggði íslenska liðinu sigurinn með stórkostlegu marki í uppbótartíma leiksins. Andri Fannar klíndi boltanum upp í samskeytin og sigur Íslands staðreynd. 

Mark Andra Fannars var algert augnayndi. Vísir/Getty

Fyrir utan að að skora sigurmarkið átti Andri Fannar flottan leik inni á miðsvæðinu og það sama má segja um félaga hans þar Eggert Aron Guðmundsson. Hafsentaparið, Hlynur Freyr Karlsson og Logi Hrafn Róbertsson stigu svo vart feilspor í þessum leik. 

Eftir að hafa verið í smá vandræðum með kantmenn Tékka í fyrri hálfleik lokuðu Ólafur Guðmundsson og Jakob Franz Pálsson á allt kantspil í þeim seinni og allir kantmenn íslenska liðsins í dag, Ísak Andri, Óskar Borgþórsson, Ari Sigurpálsson og Daniel Djuric skiluðu góðri varnarvinnu og snörpum sprettum.

Það var gaman að sjá Lúkas Petersson í marki íslenska liðsins en fyrir utan það að grípa vel inn í er hann mjög rólegur á boltann og góður í uppspili sínu. Markið sem Andri Lucas skoraði var snyrtilegt og þá var hann góður í að halda boltanum og búa til spil við Kristal Mána Ingason og aðra samherja sína. 

Davíð Snorri Jónasson á hliðarlínunni í rimmunni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Davíð Snorri: Gegguð tilfinning að sjá boltann inni

„Það var liðsheild og agi sem skilaði þessum sigri í bland við gríðarleg gæði leikmann. Við spiluðum vel í þessum leik og gáfum fá færi á okkur. Það sýnir styrk liðsins að láta ekki slá sig út af laginu eftir að hafa fengið á okkur svekkjandi jöfnunarmark,“ sagði Davíð Snorri Jónasson, þjálfari íslenska liðsins. 

„Ég er gríðarlega sáttur fyrir hönd Andra Fannars sem spilaði frábærlega í þessum leik fyrir utan það að skora markið sem skildi liðin að. Hann og aðrir leikmenn eiga hrós skilið fyrir spilamennsku sína í þessum leik. 

Það er gríðarlega sterkt að byrja þessa undankeppni með sigri. Það er langt í drauminn okkar en þetta var skref í rétta átt,“ sagði Davíð Snorri enn fremur. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira