Innlent

Hefur áhyggjur af öryggisinnviðum vegna fjölda ferðamanna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ferðaþjónustan blómstrar í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Ferðaþjónustan blómstrar í Sveitarfélaginu Hornafirði. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Samfélagið í Sveitarfélaginu Hornafirði hefur þróast í takti við fjölda ferðamanna á svæðinu síðustu ár en ferðamenn, sem heimsækja sveitarfélagið er önnur stóra stoðin í dag undir atvinnulífi sveitarfélagsins segir bæjarstjórinn. Þá segir hann að innviðir í sveitarfélaginu séu stórkostlegir þegar kemur að afþreyingu fyrir ferðamennina.

Margir af fjölmennustu ferðamannastöðum landsins eru í Hornafirði en þar má nefna Skaftafell og Jökulsárlón, svo ekki sé minnst á alla fallegu staðina innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hornfirðinga er mjög ánægður með stöðu mála þegar ferðamenn eru annars vegar í sveitarfélaginu.

„Það er mikill ferðavilji á meðal ferðamanna og við fáum stóran hluta og meiri hlutann af því ferðafólki, sem kemur til landsins. Ástæðan fyrir því er náttúrulega fyrst og fremst þessi stórkostlega náttúra, sem við höfum hérna í kringum okkur. Við erum með einstakt aðgengi af fjöllum og jöklum og jökullónum og slíku,“ segir Sigurjón.

En hvaða þýðingu hafa ferðamenn fyrir sveitarfélagið sjálft?

„Þeir hafa mjög mikla þýðingu og samfélagið hefur þróast mikið á síðustu árum í takti við fjölda ferðafólks. Þetta er svona önnur stóra stoðin í dag undir atvinnulífinu hér og við erum að gera alveg frábæra hluti þegar kemur að því að bæta innviði við að taka á móti ferðafólki.“

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Talandi um innviðina hvernig eru þeir hjá ykkur?

„Við erum með stórkostlega innviði þegar kemur að allskonar afþreyingu og gistingu, ferðum og ýmissi vöruþróun, sem er í boði fyrir ferðafólk en það sem við höfum áhyggjur af eru öryggisinnviðirnir og við erum ekki eina sveitarfélagið hér í Hornafirði, sem höfum haft áhyggjur af því. Við höfum áhyggjur af því að heilbrigðiskerfið og fyrsta viðbragð og löggæsla hafi í raun og veru ekki fylgt þessari miklu aukningu í fjölda ferðafólks,“ segir Sigurjón bæjarstjóri.

Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir Sveitarfélagið Hornafjörð til að skoða helstu náttúruperlur Íslands, sem eru í sveitarfélaginu.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×