Innlent

Gjald­taka við Reykja­víkur­flug­völl eftir tvö ár

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigrún Björk Jakobsdóttir er framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla.
Sigrún Björk Jakobsdóttir er framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla.

Framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla segir félagið þurfa að bíða eftir samþykktri samgönguáætlun til að geta hafið gjaldskyldu á bílastæðinu við Reykjavíkurflugvöll. Fjöldi fólks leggi ökutækjum sínum þar án þess að vera nokkuð að sýsla með flugvöllinn. 

Í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, um flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli segir að Isavia innanlandsflugvellir hafi verið í undirbúningi á innleiðingu gjaldskyldu á bílastæðum við flugvöllinn. Í svarinu kemur einnig fram að tekjur af bílastæðagjöldum og sektum muni renna til Isavia innanlandsflugvalla og standa undir rekstri og viðhaldi bílastæðanna.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla, segist ekki geta svarað því hvenær gjaldskyldan yrði innleidd.

„Staðan á Reykjavíkurflugvelli býður samgönguáætlunar og hvort það verði samþykkt að fara í uppbyggingu á flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Þá verður þetta tekið í heild sinni. Við höfum verið að undirbúa gjaldtöku bæði á Akureyri og Egilsstaðaflugvelli og ég reikna með að það fari í gang núna í haust,“ segir Sigrún. 

Hún segir að það yrði afar gagnlegt fyrir Isavia innanlandsflugvelli að taka upp gjaldskyldu á stæðinu sem fyrst svo stýra megi flæðinu þar. Fjöldi fólks á það til að leggja í stæðunum til lengri tíma.

„Sumir geyma bílana sína þarna mjög lengi og teppa þá bílastæðin fyrir öðrum sem eru að fara dagsferðir út á land og fleira. Þannig í rauninni er það sú stýring sem við viljum taka upp,“ segir Sigrún. 

Hún segir Isavia innanlandsflugvelli vilja nýta stæðin betur fyrir þá farþega sem eru að fljúga hverju sinni.

„Því þetta er bílastæði sem er vel staðsett þannig ég á von á því að margir séu að nýta þetta til lengri tíma án þess að vera nokkuð að sýsla með flugvöllinn,“ segir Sigrún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×