Innlent

Vinnu­brögð lög­reglunnar á Suður­nesjum á Ljósa­nótt til skoðunar

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Úlfar Lúðvíksson er lögreglustjóri á Suðurnesjum. 
Úlfar Lúðvíksson er lögreglustjóri á Suðurnesjum. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum lítur mál unglingspilts á Ljósanótt í Reykjanesbæ sem snýr að vinnubrögðum lögreglu alvarlegum augum. Móðir drengsins hefur sakað lögreglu um kynþáttahatur.

Málið varðar ferð tveggja sautján ára pilta á bæjarhátíðina Ljósanótt í Reykjanesbæ. Vísir fjallaði um málið í gærkvöldi og ræddi við móður annars drengsins. Hún lýsti því hvernig lögreglan hefði veist að öðrum drengnum, syni hennar, sem er dökkur á hörund. 

Móðir hins drengsins sem lögreglan lét afskiptalausan greindi frá málinu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og hafa viðbrögð almennings verið mikil. Hún lýsir því hvernig lögregla hafi að ósekju fært vin sonar hennar upp að vegg og látið fíkniefnahund leita á honum.

Móðir drengsins vildi ekki koma fram undir nafni til að vernda son sinn. Hún sakar lögreglu um rasisma og hefur krafist skýringa á málinu. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, frétti fyrst af málinu í morgun.

 „Við erum sannarlega að skoða þetta tilvik hér innanhúss og ég mun senda þessa kvörtun, þetta er klárlega kvörtun sem kemur þarna fram, ég hef auðvitað áhyggjur af henni og þykir þetta ekki gott,“ segir Úlfar og bætti við að lögreglan myndi hafa samband við forráðamenn drengsins. 

Margir hafa brugðist við færslu annars drengsins og segja vinnubrögð lögreglu ekki einsdæmi. Úlfar segist ekki kannast við kynþáttahatur innan lögreglunnar á Suðurnesjum. 

„Ég kannast nú ekki við það og það hefur nú ekki verið lenskan hér hjá þessu embætti. Allavega ekki þann tíma sem ég hef verið starfandi. Það hefur ekki verið vandamál. En þegar svona kemur upp þá er það auðvitað skylda mín sem lögreglustjóra er að fara vandlega yfir málið og það er það sem ég kem til með að gera,“ segir Úlfar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×