Erlent

Telja rússneska tunglfarið hafa skilið eftir sig gíg

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd LRO af gígnum sem Luna-25 er talið hafa skilið eftir sig á yfirborði tunglsins. Gígurinn er í miðju myndarinnar.
Mynd LRO af gígnum sem Luna-25 er talið hafa skilið eftir sig á yfirborði tunglsins. Gígurinn er í miðju myndarinnar. NASA’s Goddard Space Flight Center/Arizona State University

Myndir bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA benda til þess að rússneska geimfarið Luna-25 hafi skilið eftir tíu metra breiðan gíg á yfirborði tunglsins þegar það brotlenti þar í síðasta mánuði. Luna-25 var fyrsta tunglfar Rússa í tæpa hálfa öld en leiðangurinn var unnin fyrir gýg.

Tunglkönnunarbrautarfar NASA (LRO) náði myndum af nýjum gíg nærri suðurpól tunglsins sem stofnunin telur að sé líklega brotlendingarstaður Luna-25 miðað við þær upplýsingar sem rússneska geimstofnunin Roscosmos gerði opinberar 21. ágúst, tveimur dögum eftir brotlendinguna. 

Gígurinn er um fjögur hundruð kílómetrum frá ætluðum lendingarstað geimfarsins í suðvesturbrún Pntécoulant G-gígsins

Sérstök rannsóknarnefnd fer nú yfir hvað fór úrskeiðis í Luna-25-leiðangrinum sem varð til þess að geimfarið hrapaði stjórnlaust til yfirborðs tunglsins, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Brotlendingin er sögð til marks um hnignun rússnesku geimáætlunarinnar sem státaði áður af sögulegum afrekum. Sovétríkin voru þannig fyrsta ríki heims til þess að senda gervihnött á braut um jörðu og senda fyrsta karlinn og konuna út í geim. Þau eru jafnframt ennþá eina ríkið sem hefur lent geimfari á yfirborði Venusar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×