Fótbolti

Til­einkaði and­stæðingunum í úr­slita­leik HM verð­launin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sarina Wiegman er besti þjálfari Evrópu að mati UEFA.
Sarina Wiegman er besti þjálfari Evrópu að mati UEFA. EPA-EFE/GUILLAUME HORCAJUELO

Sarina Wiegman, þjálfari Englands, var í gærkvöld valin þjálfari ársins í kvennaflokki af UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu. Hún tileinkaði spænska kvennalandsliðinu, liðið sem hafði betur gegn Englandi í úrslitum HM, verðlaunin sín.

Spánn hafði betur gegn Englandi í úrslitaleik HM í síðasta mánuði. Í stað þess að umræðan hafi snúist um hversu magnað lið Spánn er með og ótrúlegt afrek þeirra hefur hún snúið að Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins.

Óumbeðinn smellti hann rembingskossi á Jenni Hermoso, leikmann spænska landsliðsins, og hefur atvikið dregið dilk á eftir sér. Hin 53 ára gamla Wiegman passaði sig að nefna það og stöðu kvenna í knattspyrnu í ræðu sinni.

Hún þakkaði fólki, þá sérstaklega kollegum sínum, fyrir að kjósa sem og öllum þeim sem koma að enska landsliðinu. Wiegman sagði að um mikinn heiður væri að ræða en að sama skapi væri þetta frekar skrítið.

„Við vitum öll af vandamálunum í kringum spænska liðið og það svíður sem þjálfari, sem móðir tveggja stúlkna, sem eiginkona og sem manneskja. Það sýnir að það er enn langt í land þegar kemur að kvennaknattspyrnu og samfélaginu í heild.“

„Verðlaunin vil ég tileinka spænska landsliðinu sem spilaði frábæran fótbolta sem öll nutu,“ sagði Wiegman við dynjandi lófaklapp.

„Ég ætlaði að biðja ykkur um að klappa eftir á en þetta lið á skilið að vera hyllt og á skilið að það sé hlustað á það,“ sagði Wiegman að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×