Fótbolti

Englandsmeistararnir og Úlfarnir komast að munnlegu samkomulagi um Nunes

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Matheus Nunes er að öllum líkindum að ganga til liðs við Manchester City.
Matheus Nunes er að öllum líkindum að ganga til liðs við Manchester City. James Gill - Danehouse/Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City hafa komist að munnlegu samkomulagi við Úlfana um kaup á portúgalska miðjumanninum Matheus Nunes.

City mun greiða 47,3 milljónir punda fyrir leikmanninn sem samsvarar tæplega 7,9 milljörðum króna. Gangi kaupin í gegn mun samningurinn ekki innihalda árangurstengdar bónusgreiðslur.

Úlfarnir höfnuðu tilboði City í seinustu viku og talið var að félagið vildi fá yfir 60 milljónir punda fyrir leikmanninn. Nunes var hættur að mæta á æfingar til að reyna að þvinga félagsskiptin í gegn.

Gary O'Neil, þjálfari Wolves, sagði þó frá því að hann byggist við því að Nunes yrði áfram í herbúðum félagsins, en nú virðist annað ætla að koma á daginn.

Englandsmeistararnir hafa verið í leit að leikmanni til að styrkja miðsvæðið eftir að Kevin de Bruyne meiddist í fyrstu umferð tímabilsins og gæti verið frá í allt að fjóra mánuði. City horfði lengi vel til Lucas Paqueta hjá West Ham, en félagið hætti við að eltast við hann eftir að enska knattspyrnusambandið greindi frá því að Paqueta sæti rannsókn vegna mögulegs brots á veðmálareglum deildarinnar.

Nunes er 25 ára portúgalskur miðjumaður sem varð dýrasti leikmaður Wolves frá upphafi er liðið keypti hann síðasta sumar fyrir 38 milljónir punda.

Hann hefur leikið 35 leiki fyrir Wolves í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim eitt mark. Þá hefur hann skorað eitt mark í ellefu leikjum fyrir portúgalska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×