Innlent

Tók íbúðina úr sölu þótt mamman tryði ekki vinningnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vinningshafinn er 32,5 milljónum krónum ríkari eftir úrdráttinn á laugardaginn. Myndin er úr safni.
Vinningshafinn er 32,5 milljónum krónum ríkari eftir úrdráttinn á laugardaginn. Myndin er úr safni. vísir/vilhelm

Karlmaður um fertugt datt í lukkupottinn liðna helgi og vann 32,5 milljónir króna í Lottó. Hann beið ekki boðanna með að taka íbúðina sína úr sölu en átti erfitt með að sannfæra móður sína um stóra vinninginn.

Fram kemur í tilkynningu frá Íslenskri getspá að viðkomandi hafi verið einn með alla tölurnar réttar. Hann hafi verið kominn í vandræði með afborganir sem höfðu hækkað allnokkuð síðustu mánuði. Vinningurinn hafi því verið vel þeginn til að geta skipulagt stöðuna upp á nýtt með fjármálaráðgjöf sem vinningshafar fá hjá Íslenskri getspá.

Auk þess að búa áfram í íbúðinni með lægri greiðslubyrði segir vinningshafinn að dóttir sín, sem er við það að taka bílpróf, fái að njóta vinningsins líka en bætir því við að kostuleg viðbrögð foreldra hans hafi verið ákveðinn aukavinningur. Faðir hans hafi frosið í framan. Móðirin neitaði staðfastlega að trúa góðu fréttunum og sagði bara „Þegiðu! Þegiðu! Þú lýgur þessu! Þegiðu!“

„Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk, sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.“

Líkurnar á að fá allar fimm tölurnar réttar í Lottóinu eru einn á móti 850 þúsund eða sem svarar um 0,00012 prósentum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×