Innlent

Sér­sveit send á skemmti­stað vegna hnífa­burðar

Árni Sæberg skrifar
Sérsveitarmenn bera engar loftbyssur.
Sérsveitarmenn bera engar loftbyssur. Vísir/Vilhelm

Talsverður erill var hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Sérsveit Ríkislögreglustjóra var til að mynda tvívegis kölluð út, annars vegar vegna tilkynningar um mann með skammbyssu og hins vegar vegna manns sem sagður var hóta fólki með hníf á skemmtistað.

Þetta segir í dagbókarfærslu lögreglu fyrir tímabilið 17 til 05 í morgun. Þar segir að tilkynnt hafi verið um skotvopn sem sást innan um glugga í húsnæði í Reykjavík. Lögregla ásamt sérsveit hafi farið á vettvang og handtekið einn á vettvangi vegna málsins. Vopnið sem um ræddi hafi reynst vera loftbyssa og nákvæm eftirlíking af skammbyssu. Málið sé í rannsókn.

Þá hafi verið tilkynnt um ógnandi mann með hníf á sér fyrir utan skemmtistað. Hann hafi þó ekki verið að ógna með hnífnum en vissulega haft hann meðferðis. Lögregla og sérsveit hafi farið á vettvang og handtekið manninn, sem hafi reynst undir áhrifum áfengis og verið vistaður í klefa fyrir rannsókn málsins.

Tók hníf að heiman á Í túninu heima

Í dagbókinni segir að í Mosfellsbæ hafi verið tilkynnt um ungmenni með hníf innanklæða á hátíðinni Í túninu heima. Lögregla hafi fundið ungmennið eftir lýsingu vitna og það reynst vera með eldhúshníf innanklæða. Hnífurinn hafi verið haldlagður af lögreglu og upplýsingar teknar á vettvangi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×