Fótbolti

Gylfi Þór með munn­legt sam­komu­lag við Lyng­by

Aron Guðmundsson skrifar
Íslenski knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er án félags
Íslenski knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er án félags Vísir/Getty

Íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu, Gylfi Þór Sigurðsson, hefur gert munnlegt samkomulag við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby. 

Frá þessu er greint á heimasíðu danska úrvalsdeildarfélagsins í dag og er þar sagt að ef allt gangi vel muni Gylfi Þór verða leikmaður félagsins í nánustu framtíð. 

Gylfi er mættur til Danmerkur þar sem að hann æfir nú þessa dagana.

„Við höfum átt virkt samtal við Gylfa undanfarnar tvær vikur og í gegnum það samtal höfum við fundið vilja hjá Gylfa til þess að verða leikmaður Lyngby,“ segir Nicklas Kjeldsen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Lyngby.

Kjeldsen segir óvanalegt fyrir félagið að tjá sig svona um málefni leikmanns þegar félagsskipti hafa ekki gengið í gegn.

„En við finnum fyrir miklum jákvæðum áhuga. Bæði frá fjölmiðlum, stuðningsmönnum og styrktaraðilum og erum ánægð með það.“

Freyr Alexandersson er þjálfari Lyngby og hann greindi frá því í viðtali á dögunum að það væru helmingslíkur á því að Gylfi myndi semja við félagið. 

„Ég myndi segja að líkurnar væru 50/50,“ sagði Freyr sem vildi ekki fara nánar út í við­ræðurnar. „Ég get ekki farið í nein smá­at­riði en við höfum sett saman plan og ef það gengur upp er raun­hæft að Gylfi Þór verði leik­maður Lyng­by.“

Gylfi hefur verið ó­samnings­bundinn frá því að fimm ára risa­samningur hans við enska úr­vals­deildar­fé­lagið E­ver­ton rann út sumarið 2022.

Hann hefur ekki spilað fót­bolta­leik síðan í maí 2021 en hann var hand­tekinn síðar það sumar vegna gruns um brot gegn ó­lög­ráða ein­stak­lingi.

Í apríl síðast­liðnum lýsti lög­reglan í Manchester því hins vegar yfir að sönnunar­gögn „næðu ekki þeim þröskuldi sem fellur að reglum sak­sóknara krúnunnar“, og var Gylfi þar með laus allra mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×