Innlent

Í fullum rétti til að setja stórt spurninga­merki við hug­mynd Guð­rúnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags-og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags-og vinnumarkaðsráðherra. Vísir/Vilhelm

Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, fé­lags-og vinnu­markaðs­ráð­herra, sagðist heyra skila­boðin sem honum bárust vegna mála flótta­fólks sem svipt hefur verið þjónustu. Ráð­herrann á­varpaði fund sem haldinn var af 28 fé­laga­sam­tökum í gær vegna málsins og sagðist meðal annars setja stórt spurninga­merki við hug­myndir dóms­mála­ráð­herra um lokað bú­setu­úr­ræði fyrir fólk í ó­lög­mætri dvöl hér­lendis.

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé gott að taka sam­tal, ekki síst um erfið og þung mál sem þetta mál vissu­lega er,“ sagði ráð­herrann í á­varpi sínu sem horfa má á í heild sinni hér fyrir neðan.

Hann sagði aug­ljóst að fram­kvæmd nýrra laga væri miklum vand­kvæðum háð. Það hefði ekki verið vilji Al­þingis að fólk lenti á götunni þegar ný lög um flótta­fólk voru sam­þykkt í vor.

Svaraði spurningum úr sal

Guð­mundur svaraði þá nokkrum spurningum sem beint var til hans á fundinum. Hann sagðist vera sam­mála því sem komið hefði fram á fundinum um að máls­með­ferðar­tími væri of langur.

Þá nefndi Guð­mundur spurningu til sín um það hvort stjórn­völd væru að stefna að því að koma upp lokuðu bú­setu­úr­ræði hér á landi fyrir fólk í ó­lög­mætri dvöl sem ein­hverra hluta vegna kemst ekki úr landi.

„Það sem ég hef heyrt af þessu í um­ræðunni og rætt við dóms­mála­ráð­herra, þá eru þetta hug­myndir sem koma frá henni sem stjórn­mála­manni og hún verður að bera á­byrgð á þeim hug­myndum sínum sjálf.“

Guðmundur Ingi var eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem þekktist boð félagasamtakanna um að mæta á fundinn.Vísir/Vilhelm

Guð­mundur sagði þetta vera eitt­hvað sem oft hefði verið í um­ræðunni áður. Sú leið hafi hins vegar ekki verið farin í þeirri lög­gjöf sem sam­þykkt var á Al­þingi í vor.

„Og ég myndi al­mennt segja að í þessum málum þurfi að koma fram hug­myndir og lausnir sem eru færar sam­kvæmt þeim lögum sem við störfum eftir í dag og ef það er farið að ræða um ein­hverjar breytingar á slíku, þá verða þær breytingar að vera settar fram með þeim hætti að það sé hægt að fara með þær í gegnum Al­þingi og sam­þykkja þær og ég get bara ein­fald­lega ekki svarað því, vegna þess að ég veit ekki ná­kvæm­lega hvernig dóms­mála­ráð­herrann okkar hugsar þetta.“

Hann sagði Guð­rúnu hafa sett slíkar hug­myndir fram. Hún væri í fullum rétti til þess.

„En ég er líka í fullum rétti til þess að segja að ég set stórt spurninga­merki við það, þetta er eitt­hvað sem minn flokkur hefur ekki horft til hingað til. Þess vegna eru þetta kannski ó­ljósar hug­myndir á þessu stigi en mér finnst ekkert at­huga­vert við það að ræða hlutina, rétt eins og við erum að ræða málin hér í dag.“

Margmenni var á fundinum í salarkynnum Hjálpræðishersins.Vísir/Vilhelm


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×