Fótbolti

„Ég skora alltaf á Hlíðarenda“

Hjörvar Ólafsson skrifar
367433273_10159095791447447_5338769383475540150_n

Logi Tómasson skoraði eitt marka Víkings þegar liðið bar sigurorð af Val í toppslag Bestu deildar karla í fótbolta á Origo-vellinum að Hlíðarenda í kvöld. Logi er mögulega að spila sinn síðasta leik fyrir Víking í bili en hann er á leið til Strömsgodset í Noregi. 

„Ég ákvað bara að negla. Ég skora alltaf á Hlíðarenda og ég var búinn að segja það við liðsfélagana fyrir leik að ég hefði á tilfinningunni að ég myndi setja hann í þessum leik. Það varð svo bara raunin sem er bara frábært,“ sagði Logi Tómasson að leik loknum.

„Þetta Víkingslið er alveg frábært og það er mjög gaman að spila fyrir liðið. Sorrý Kári og Sölvi Geir, mér finnst þetta lið betra en það sem varð Íslandsmeistari árið 2021. Þessi sigur var geggjaður og nú er það bara áfram gakk,“ sagði vinstri bakvörðurinn.

„Ég er ekki alveg viss hvort ég spili á móti Blikum í næstu umferð deildarinnar eða fari til Noregs í næstu viku. Það kemur bara í ljós. Ég vildi koma liðinu í góða stöðu áður en ég fer og þetta var skref í þá átt,“ sagði hann um framhaldið en Logi er að ganga til liðs við Strömsgodset í Noregi.

„Það verður vissulega erfitt að kvejða Víking á þessum tímapunkti en ég hef stefnt að því síðan ég var krakki að komast í atvinnumennsku og lagt hart að mér síðustu tvö ár til þess að láta þann draum verða að veruleika. Ég er því mjög spenntur fyrir komandi verkefni,“ sagði hann enn fremur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×