Fótbolti

Bayern byrjar á sigri þar sem Kane lagði upp og skoraði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane er mættur til Þýskalands.
Harry Kane er mættur til Þýskalands. Christof Koepsel/Getty Images

Þýskalandsmeistarar Bayern München byrja tímabilið þar í landi á þægilegum 4-0 útisigri á Werder Bremen. Nýi maðurinn, Harry Kane, skoraði annað mark Bæjara eftir að hafa lagt upp fyrsta markið.

Það tók Bayern aðeins fjórar mínútur að skora fyrsta mark tímabilsins. Þar var að verki Leroy Sané eftir stoðsendingu Harry Kane. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks þrátt fyrir að þýski landsliðsframherjinn Niclas Füllkrug hefði komið boltanum í netið fyrir Bremen skömmu síðar. Markið hins vegar dæmt af vegna rangstöðu eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði það almennilega.

Kane sjálfur gerði svo endanlega út um leikinn þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Hann kláraði færi sitt afbragðs vel eftir að Alphonso Davies hafði stungið boltanum í gegn um vörn Bremen.

Staðan orðin 2-0 en það urðu samt ekki lokatölur þar sem Sané skoraði sitt annað mark í uppbótartíma eftir sendingu frá Thomas Müller. Hinn ungi Mathys Tel skoraði svo fjórða mark Bayern eftir sendingu frá Davies.  Lokatölur 0-4 og Þýskalandsmeistarar Bayern byrja deildina á góðum sigri eftir skelfilegt tap gegn RB Leipzig í leiknum um þýska Ofurbikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×