Veður

Víð­áttu­mikil lægð veldur all­hvössum vindi syðst á landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu tólf til 21 stig.
Hiti á landinu verður á bilinu tólf til 21 stig. Vísir/Vilhelm

Víðáttumikil lægð langt suður í hafi veldur austlægum vindi á landinu, sums staðar allhvössum og hviðóttum syðst fram á morgundag.

Annars má reikna með dátítilli rigningu eða súld í dag, hvassast syðst, en yfirleitt bjartara og þurrt norðan heiða. Það mun svo rofa til víða í nótt. Hiti verður yfirleitt á bilinu tólf til 21 stig í dag, hlýjast norðaustanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að vegna hvassviðrisins syðst á landinu sé í gildi athugasemd veðurfræðings um líkur á snörpum vindhviðum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum, sem gætu verið varasamar ökutækjum, sem taka á sig mikinn vind.

„Lægðin ber til okkar hlýtt og rakt loft, sem gefur lítilsháttar rigningu öðru hvoru sunnan- og vestantil og hitatölur kringum 20 stig við bestu aðstæður. Regnsvæðin fjarlægast í nótt og þá rofar til víða um land, nema helst austanlands og við suðurströndina, þar sem áfram má búast við smávætu.

Veðrið ætti því að leika við gesti og hlaupara Menningarnætur borgarinnar á morgun.

Hvessir síðan af norðausturi á sunnudag og fer að rigna á austurhelmingi landsins,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Austlæg átt, 3-10 m/s, en 10-15 við suðausturströndina. Skýjað og smásúld austast, en annars bjart með köflum. Hiti 12 til 22 stig, hlýjast inn til landsins, en mun svalara við austurströndina.

Á sunnudag: Norðaustlæg átt, 5-13 m/s, skýjað norðantil og rigning eða súld austantil, en bjart með köflum suðvestanlands. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast sunnan heiða.

Á mánudag og þriðjudag: Norðlæg átt og dálítil rigning með köflum á austanverðu landinu, en annars úrkomulítið. Kólnar heldur fyrir norðan, en áfram hlýtt syðra.

Á miðvikudag: Norðaustlæg átt og dálítil rigning með köflum, en úrkomulítið norðvestantil og milt veður.

Á fimmtudag: Útlit fyrir hæga vinda, bjart með köflum og hlýnandi veður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×