Fótbolti

Ís­lendinga­liðin örugg­lega á­fram í næstu um­ferð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alfons í leik með Twente nú um helgina.
Alfons í leik með Twente nú um helgina. Vísir/Getty

Twente og Midtjylland eru bæði komin áfram í umspil um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir sigra í einvígjum sínum í kvöld.

Alfons Sampsted og félagar hans í Twente unnu 2-0 sigur á FC Riga í fyrri leik liðanna í Hollandi fyrir viku síðan. Staðan í hálfleik í leiknum í kvöld var 0-0 en eftir hlé gekk hollenska liðið vasklega fram og kláraði leikinn.

Daan Rots skoraði á 57. mínútu og þeir Gijs Besselink og Naci Unuvar skoruðu síðan tvö mörk undir lokin og tryggðu 3-0 sigur. Alfons Sampsted var í byrjunarliði Twente í kvöld og var tekinn af velli á 80. mínútu.

Sverrir Ingi Ingason sat allan leikinn á varamannabekk Midtjylland sem sömuleiðis vann öruggan sigur í einvígi sínu gegn AC Omonia. Kýpverska liðið vann reyndar 1-0 sigur í fyrri leiknum á heimavelli en Midtjylland vann öruggan 5-1 sigur í dag og fer því áfram. 

Ioannis Kousoulos fékk rautt spjald hjá AC Omonia í fyrri hálfleik og eftirleikurinn auðveldur fyrir danska liðið. Leikirnir í umspili Sambandsdeildarinnar fara fram í næstu og þarnæstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×