Innlent

Skreið nakinn um garðinn og tíndi gras

Eiður Þór Árnason skrifar
Úrskurðurinn var kveðinn upp í Landsrétti á þriðjudag.
Úrskurðurinn var kveðinn upp í Landsrétti á þriðjudag. Vísir/Vilhelm

Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir einstaklingi sem er meðal annars sakaður um að hafa brotist tvisvar inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu og beitt fólk þar ofbeldi. Sá er einnig grunaður um ítrekaðan þjófnað og að hafa valdið hneykslan á almannafæri þegar hann skreið allsnakinn um garð í Reykjavík og tíndi gras.

Ákærði var handtekinn 12. ágúst vegna gruns um húsbrot og líkamsárás í Reykjavík og hefur ítrekað komið við sögu lögreglu frá 16. mars. Þá er hann grunaður um að hafa brotist inn í kjallara í Reykjavík með öðrum og stolið þaðan bakpoka, kassa af bjór, vínflöskum, útilegutösku, ljósi og verkfærum. 

Í ákæru er hann jafnframt sakaður um þjófnað og gripdeildir í og við verslanir í Reykjavík þar sem honum er gert að hafa stolið rafmagnshlaupahjóli, húfu, tvennum buxum, belti og derhúfu.

Þetta kemur fram í úrskurði Landsréttar en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á gæsluvarðhald í tengslum við sjö mál sem embættið er með til meðferðar. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður úrskurðað einstaklinginn í gæsluvarðhald til 8. september næstkomandi. Var þeirri niðurstöðu áfrýjað til Landsréttar sem staðfesti úrskurðinn 14. ágúst.

Mögulega sektaður fyrir grastínsluna

Þann 10. júlí er ákærði sagður hafa brotið gegn lögreglusamþykkt í Reykjavík með því að hafa „valdið hneykslan á almannafæri er hann skreið allsnakinn um garðinn við húsið og var að tína gras,“ eins og það er orðað í greinagerð saksóknara.

Vísað er til ákvæðis lögreglusamþykktarinnar þar sem kveðið er á um að lögreglan geti vísað mönnum í burtu af almannafæri sem með háttsemi sinni valdi vegfarendum eða íbúum í nágrenninu ónæði. Sama eigi við um þá sem valdi óspektum, hættu eða hneykslan á almannafæri sökum ölvunar eða af öðrum ástæðum. Brot gegn lögreglusamþykkt geta varðað sektum.

Kærði er undir rökstuddum grun um húsbrot og líkamsárás með því að hafa ruðst heimildarlaust inn í íbúð í Hafnarfirði þann 29. júlí og veist þar með ofbeldi að tveimur íbúum. Hann er einnig sagður hafa ruðst heimildarlaust inn í aðra íbúð í Reykjavík 12. ágúst og beitt einstakling þar ofbeldi.

Í úrskurði Landsréttar er fallist á að hinn ákærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem varði fangelsisrefsingu. Var talið af tíðni ætlaðra brota að hann væri líklegur til að halda afbrotum áfram ef hann væri frjáls ferða sinna á meðan lögregla kláraði rannsókn á umræddum málum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×