Innlent

Er­lendum ríkis­borgurum fjölgað um tíu prósent frá desember

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 6.665 á síðustu átta mánuðum. Það er rúmlega tíu prósenta fjölgun.
Erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 6.665 á síðustu átta mánuðum. Það er rúmlega tíu prósenta fjölgun. Vísir/Vilhelm

Erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi voru 71.250 þann 1. ágúst síðastliðinn. Þeim fjölgaði um 6.665 einstaklinga frá 1. desember 2022 eða um 10,3 prósent. Úkraínskum ríkisborgurum hefur fjölgað um helming á tímabilinu.

Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár

Þá segir að á sama tímabili hafi íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 1.444 einstaklinga eða 0,4 prósent.

Hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum er 18,03 prósent samkvæmt Þjóðskrá. Fjölmennastir eru pólskir ríkisborgarar sem eru 25.165 en þeim fjölgaði á sama tímabili um 1.869 einstaklinga eða átta prósent. Þar á eftir koma Litháar og Rúmenar.

Hér má sjá hvert hlutfall erlendra og íslenskra ríkisborga er af heildarfjölda íbúa.Þjóðskrá

Úkraínskum ríkisborgurm fjölgað um helming

Úkraínskum ríkisborgurum hefur fjölgað um 50,9 prósent frá 1. desember 2022. Í byrjun ágústmánaðar voru alls 3.419 úkraínskir ríkisborgarar skráðir til heimilis á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá. Það er fjölgun um 1.154 einstaklinga á tímabilinu.

Sömuleiðis segir að umtalsverð fjölgun hafi orðið á ríkisborgurum frá Palestínu. Þeim fjölgaði um 134 einstaklinga, eða um 43,2%, og eru nú 444 einstaklingar með palestínskt ríkisfang búsettir hér á landi. 

Hægt er að skoða töflu yfir fjölda íbúa eftir ríkisfangi þann 1. ágúst 2023 til samanburðar við stöðuna 1. desember 2019-2022. Þar sést til dæmis að hundrað prósent fækkun hefur orðið á íbúum með líberískt ríkisfang. Þeir voru fimm en eru núna núll.

Í júlí var greint frá því að íbúum með erlent ríkisfang hefði fjölgað um 5.722 einstaklinga frá 1. desember 2022 til 1. júlí 2023. Miðað við það hefur íbúum með erlent ríkisfang hér á landi fjölgað um 943 á undanförnum mánuði.


Tengdar fréttir

Er­lendum ríkis­borgurum fjölgað um níu prósent frá í desember

Alls voru 70.307 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. júlí síðastliðinn og fjölgaði þeim um 5.722 einstaklinga frá 1. desember 2022 eða um 8,9%. Þetta kemur fram á vefsíðu Þjóðskrár. Erlendir ríkisborgarar eru nú um 18 prósent landsmanna og hefur hlutfallið aukist að um rúmt prósent á ári undanfarin fimm ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×