Innlent

Neitar að tjá sig um meint inn­brot á Lamb­eyrum

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra segir fyrri yfirlýsingu sína um Lambeyradeiluna standa.
Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra segir fyrri yfirlýsingu sína um Lambeyradeiluna standa. Vísir/Vilhelm

Barnamálaráðherra neitar að tjá sig um meint innbrot hans á jörðinni Lambeyrum og segir fyrri yfirlýsingu standa. Hann segist ekki hafa haft áhrif á vinnubrögð lögreglu í málinu.

Töluvert hefur verið fjallað um fjölskylduerjurnar á Lambeyrum eftir að þrjár frænkur Ásmundar Einars Daðasonar barnamálaráðherra sögðu sögu sína í hlaðvarpinu: Lömbin þagna ekki. Þar er barnamálaráðherra sakaður um innbrot og faðir hans og föðurbróðir um ítrekuð skemmdarverk á jörðinni. 

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Ásmundur ekki veitt fjölmiðlum viðtöl vegna málsins en sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði deiluna ekki koma sér við. Hann hafi í upphafi tekið einarða afstöðu með föður sínum en hafi stigið út úr átökunum. 

Þegar ráðherra var inntur eftir svörum um málið á leið á ríkisstjórnarfund í morgun sagði hann engu við yfirlýsinguna að bæta. „Ég hef þegar gefið yfirlýsingu vegna þessarar sorglegu erfðadeilu og ég hef engu við það að bæta.“ 

Lambeyrasysturnar sögðu í ítarlegu viðtali við fréttastofu að eigendur jarðarinnar hafi ítrekað reynt að fá aðstoð lögreglu þegar skemmdarverk hafi verið framin en lögregla neitað að mæta á svæðið. Ásmundur hafi mikil ítök á Vesturlandi og því þori lögreglan ekki að aðhafast í málinu. 

Hefur þú beitt þér fyrir því að lögreglan aðhafist ekki í málinu? 

„Nei,“ svarar Ásmundur. Aðspurður hvort það sé óeðlilegt að lögregla sinni ekki tilkynningum um málið segir ráðherra aðra verða að svara fyrir það. „Ég hef ekki komið nálægt þessari deilu í mörg ár. Þessari sorglegu erfðadeilu og þeir sem eiga í þessum deilum verða að svara fyrir það,“ segir hann. 

Er það þá rangt að þú hafir brotist inn? 

„Eins og ég hef sagt þá ætla ég ekki ítrekað að svara röngum ásökunum í þessu efni.“


Tengdar fréttir

Segir Ás­mund lykil­mann í fjöl­skyldu­harm­leiknum

Ása Skúladóttir, annar þáttastjórnandi hlaðvarpsþáttanna Lömbin þagna ekki, líkir Lambeyrardeilunni við sinubruna sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kveikti og segir ósanngjarnt að hann tali eins og hann komi ekki málinu við, verandi lykilmaður þess. 

Skorar á Ás­mund Einar að mæta sér í sjón­varpi

Ása Skúladóttir, frænka Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra, skorar á hann að mæta sér í sjónvarpssal til að ræða um ættardeiluna á Lambeyrum. Hún og systur hennar byrjuðu nýlega með hlaðvarp þar sem þær fjalla um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×