Tilefnið er umsögn lækningavörufyrirtækisins Kerecis, en undir hana ritar Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri fyrirtækisins nafn sitt. Þar er lýst er yfir miklum vonbrigðum með fyrirliggjandi samgönguáætlun sem Sigurður Ingi kynnti í júní.
Í umsögninni segir að Vestfirðir verði áfram jaðarsettir í áætluninni, en landshlutinn þurfi að njóta forgangs þar sem vegakerfi þeirra sé það lang lakasta á landinu. Samgöngur til Ísafjarðar eigi að vera sambærilegar þeim til Akureyrar og lífsnauðsynlegt að forgangsraða fjármunum til samgönguuppbyggingar til Vestfjarða á kostnað annarra landshluta.
Miklar áskoranir framundan
Sigurður Ingi segir að gert sé ráð fyrir töluverðu fjármagni í vegagerð á Vestfjörðum í nýrri samgönguáætlun en rétt sé að gera þurfi betur.
„Það eru miklar áskoranir framundan. Við erum með býsna metnaðarfulla jarðgangaáætlun í þessari samgönguáætlun og þar á meðal eru þó nokkuð mörg jarðgöng á Vestfjörðum. En það er alveg rétt að við þurfum að gera enn betur til þess að koma sem flestum vegum í það að vera láglendisvegir.“
Umferðarþungi mestur á Suðurlandi
Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að veita mismiklu fjármagni til vegagerðar á milli landshluta, meðal annars af Magnúsi Magnússyni, ritstjóra staðarmiðilsins Skessuhorns á Vesturlandi. Magnús segir nánast enga peninga áætlaða í nýframkvæmdir í vegagerð á Vesturlandi á næstu fimm árum en töluvert meira á Suðurlandi til samanburðar.
„Við höfum ákveðið að forgangsraða framkvæmdum eftir umferðarþunga og settum í síðustu samgönguáætlunum áherslu á að aðskilja aksturstefnu á þessum vegum sem eru umferðarþyngstir og þar sem alvarlegustu slysin verða, það er að segja á Reykjanesbrautinni, Suðurlandsvegi og á Kjalarnesi og það er kannski ástæðan fyrir því,“ segir Sigurður Ingi
„Auðvitað er líka umferðarþunginn langmestur á Suðurlandi, fyrir utan þessa vegi þarna. En síðan höfum við verið með verulegt átak í uppbyggingu á Vestfjörðum. Það eru gríðarlega miklir fjármunir í gangi á suðurleiðinni og síðustu göngin sem voru gerð voru Dýrafjarðargöngin. En já já, það væri gott að geta gert betur. Ég vildi gjarnan hafa meiri peninga til þess að geta gert enn betur.“