Fótbolti

Táningurinn kom spænsku stelpunum í undanúrslitin í fyrsta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Salma Paralluelo fagnar hér sigurmarki sínu í nótt. Hún var sett út úr byrjunarliðinu fyrir leikinn en kom sterk inn og varð hetja síns liðs í framlengingu.
Salma Paralluelo fagnar hér sigurmarki sínu í nótt. Hún var sett út úr byrjunarliðinu fyrir leikinn en kom sterk inn og varð hetja síns liðs í framlengingu. Getty/Lars Baron

Varamaðurinn Salma Paralluelo skoraði sigurmark Spánar í framlengingu þegar liðið varð fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum á HM kvenna í fótbolta.

Spænska landsliðið hafði aldrei áður komust lengra en í sextán liða úrslitin á heimsmeistaramóti kvenna en mætir nú annað hvort Japan eða Svíþjóð í undanúrslitunum.

Spánn vann Holland 2-1 eftir að staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma en bæði mörkin í honum komu á síðustu tíu mínútunum.

Spænska liðið var miklu betra liðið í leiknum, skoraði mark í fyrri hálfleik sem var dæmt af, átt tvö stangarskot og var með yfirburði í skotum (26-9) og að vera með boltann (62%-38%). Xg var 2,98 hjá Spáni en aðeins 0,90 hjá Hollandi í leiknum.

Mariona Caldentey kom Spáni í 1-0 með marki úr vítaspyrnu á 81. mínútu. Vítið var dæmt á Stefanie Van der Gragt fyrir að handleika boltann.

Van der Gragt, sem var að spila sinn síðasta leik á HM á ferlinum, bætti fyrir mistökin með því að jafna metin í uppbótatíma og tryggja hollenska liðinu framlengingu.

Hin nítján ára gamla Salma Paralluelo hafði komið inn á sem varamaður tuttugu mínútum fyrir leikslok en varð hetja þjóðar sinnar þegar hún skoraði sigurmarkið á 111. mínútu eftir sendingu frá Jennifer Hermoso.

Með þessu marki varð hún ekki aðeins hetja spænska liðsins heldur yngsti leikmaður landsliðsins til að skora á HM kvenna.

Paralluelo er leikmaður Barcelona og hefur bæði orðið heimsmeistari með 17 ára (2018) og 20 ára landsliði Spánar (2022). Hún vann bæði Meistaradeildina og spænska meistaratitilinn með Barcelona í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×