Fótbolti

Lauren James full iðrunar og fékk líka kveðju frá þeirri sem hún steig á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauren James stígur hér á Michelle Alozie en hún fékk á endanum rautt spjald fyrir það og verður í banni í átta liða úrslitum HM.
Lauren James stígur hér á Michelle Alozie en hún fékk á endanum rautt spjald fyrir það og verður í banni í átta liða úrslitum HM. Getty/Matt Roberts

Enska landsliðskonan Lauren James hefur beðist afsökunar á framkomu sinni í leiknum á móti Nígeríu í sextán liða úrslitum HM kvenna í fótbolta þar sem hún fékk rautt spjald fyrir að stíga á mótherja.

James fékk fyrst gula spjaldið en dómarinn breytti því í rautt spjald með hjálp frá myndbandadómurum.

Enska liðið náði að koma leiknum í vítakeppni manni færri og tryggði sér sigur í henni og þar sem sæti í átta liða úrslitum. James verður í banni í þeim leik sem er á móti Kólumbíu.

Lauren James sendi afsökunarbeiðni til nígerísku landsliðskonunnar Michelle Alozie sem hún steig á.

„Ég sendi þér ást og virðingu. Mér þykir svo leiðinlegt hvað gerðist þarna,“ skrifaði hin 21 árs gamla Lauren James til Alozie og bætti svo við:

„Ég vil biðja stuðningsmenn enska liðsins og liðsfélaga mína afsökunar. Það er minn mesti heiður að spila með ykkur og fyrir ykkur og ég lofa að læra af þessari reynslu,“ skrifaði James.

James var orðin stærsta stjarna enska liðsins enda kominn með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar á heimsmeistaramótinu. Pressan var mikil og hún náði sér ekki á strik í leiknum.

Enska sambandið sendi líka frá sér yfirlýsingu: „Lauren sér mikið eftir því sem hún gerði og leiddi til rauða spjaldsins. Hún er full iðrunar. Þetta er algjörlega út úr karakter hjá henni.“

Alozie sendi James líka kveðju.

„Við erum að spila á stærsta sviðinu. Þessi leikur snýst um ástríðu, tilfinningar og móment. Ég ber fulla virðingu fyrir Lauren James,“ skrifaði Michelle Alozie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×