Fótbolti

Svíar áfram eftir ótrúlega vítaspyrnukeppni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lina Hurtig fagnar eftir að boltinn hafði rétt snert línuna í vítinu hennar.
Lina Hurtig fagnar eftir að boltinn hafði rétt snert línuna í vítinu hennar. vísir/getty

Svíþjóð er komið í átta liða úrslit á HM kvenna eftir sigur á Bandaríkjunum. Vítaspyrnukeppni þurfti til og markvörður sænska liðsins varði sínar konur þangað.

Bandaríska liðið var mun sterkara í fyrri hálfleik. Stýrði umferðinni og fékk betri færi. Það voru því mikil vonbrigði fyrir bandaríska liðið að markalaust væri í leikhléi.

Bandaríska stúlkurnar héldu áfram að þjarma að Svíum í seinni hálfleik en þeim virtist algjörlega fyrirmunað að koma boltanum yfir línuna. Zecira Musovic var ótrúleg í marki Svía og varði allt sem á markið kom.

Það var markalaust eftir 90 mínútur og því varð að framlengja. Þökk sé Musovic var ekkert skorað þar og því fór leikurinn í vítaspyrnukeppni.

Þar hélt dramatíkin áfram því vítaspyrnukeppnin fór í bráðabana. Lokaspyrna Svíanna virtist vera varin en eftir að dómarar höfðu skoðað vítið, sem Lina Hurtig tók, sögðu þeir að boltinn væri inni og Svíar komnir áfram. Marklínutæknin sýndi að boltinn var millimetra yfir línuna. Lygilegt.

Ótrúlega svekkjandi fyrir bandaríska liðið sem var sterkari aðilinn en Svíar spila gegn Japan í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×