Fótbolti

„Ekki hræddar við neitt lið á þessu heimsmeistaramóti“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mary Earps er ánægð með heimsmeistaramótið til þessa en enska liðið getur farið mjög langt á mótinu.
Mary Earps er ánægð með heimsmeistaramótið til þessa en enska liðið getur farið mjög langt á mótinu. AP/Mark Baker

Sextán liða úrslit heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta hefjast á morgun en Evrópumeistarar Englands mæta Nígeríu á mánudaginn.

Enska landsliðið tryggði sér sigur í sínum riðli með 6-1 sigri á Kína í lokaleiknum sínum en liðið hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína á mótinu.

Mary Earps, markvörður enska landsliðsins, hefur aðeins fengið á sig eitt mark á mótinu og það kom úr vítaspyrnu í umræddum stórsigri.

Ensku stelpurnar hafa aðeins tapað einu sinni í 35 leikjum síðan að Sarina Wiegman tók við þjálfun liðsins.

„Gæði okkar hafa skinið í gegn af því við höfum verið að spila vel saman. Ég tel að við séum á góðum stað,“ sagði Mary Earps.

„Við erum ekki hræddar við neitt lið á þessu heimsmeistaramóti,“ sagði Earps. Enska liðið spilar við annað hvort Kólumbíu eða Jamaíka komist liðið í átta liða úrslitin. Breska ríkisútvarpið segir frá.

„Hlutirnir gengu vel upp hjá okkur í síðasta leik en það verður ekki alltaf þannig. Á meðan við höldum áfram að klára okkar leiki þá kvarta ég ekki,“ sagði Earps.

„Auðvitað er ég samt mjög ánægð með að liðið sé að skora mörk og fyrir okkur að geta notið okkar inn á vellinum og sýnt hversu skapandi lið við erum með,“ sagði Earps.

„Mikilvægast er þó að við höfum unnið þrjá leiki af þremur mögulegum. Ég veit að kannski bjóst fólk við meiru í fyrstu tveimur leikjunum en við erum að spila á HM,“ sagði Earps.

„Hér eru þær bestu að spila og hingað er mættur rjómi kvennafótboltans. Við vitum hvað við getum en ætlum að einbeita okkur að einum leik í einu og klára þetta verkefni,“ sagði Earps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×