Innlent

Gosið í dauðateygjunum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Eldgos við Litla Hrút á Reykjanesi hófst 10. júlí. Myndin er tekin 27. júlí.
Eldgos við Litla Hrút á Reykjanesi hófst 10. júlí. Myndin er tekin 27. júlí. vísir/vilhelm

Það lítur allt út fyrir að eldgosið sem hófst 10. júlí síðastliðinn við Litla Hrút sé að líða undir lok. 

„Gosopið er búið að minnka mjög mikið,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni í samtali við Vísi. „Það má vænta þess að þetta sé í dauðateygjunum,“ bætir hún við.

Líklegt er að gospið lokist en hraunrennsli haldið áfram neðan jarðar.

„Svo getur bara komið tappi í gosið, sem er nógu sterkur til að halda, og þá er þessu lokið í bili,“ segir Salóme.

Um síðustu helgi var greint frá niðurstöðum Jarðvísindastofnunnar Háskóla Íslands þar sem fram kom að dregið hafi úr afli gossins um 30 til 50 prósent síðustu vikuna í júlí. Var því talið að goslok væru möguleg eftir eina til tvær vikur að því gefnu að framleiðni gossins haldi áfram að falla með sama hraða. 

Í síðustu mælingum á kvikurennsli sprungunnar mældist rennslið fimm rúmmetrar á sekúndu. Þær mælingar eru frá 31. ágúst og má því gera ráð fyrir því að rennslið hafi minnkað síðan þá. 

Á vefmyndavél RÚV sést aðeins í reyk frá gosinu en enga kviku.

Það eru þá allar líkur á því að þetta klárist á næstu dögum?

„Það lítur allt út fyrir það en svo er aldrei hægt að segja til um það. Það getur lokast fyrir gosopið og opnast ný sprunga. En þetta fer hjaðnandi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×