Innlent

Dramatísk fækkun ungs fólks á Ís­landi sem fer í með­ferð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Valgerður Rúnarsdóttir forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga á Vogi, segir jákvætt að færri í hópi ungs fólks leiti til Vogs þó að kanna þurfi ástæðurnar til hlýtar.
Valgerður Rúnarsdóttir forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga á Vogi, segir jákvætt að færri í hópi ungs fólks leiti til Vogs þó að kanna þurfi ástæðurnar til hlýtar.

Ungt fólk hefur mun síður leitað í með­ferð á Vogi síðustu þrjú ár og er um að ræða gríðar­lega fækkun frá því á fyrri árum. For­stjóri og fram­kvæmda­stjóri lækninga á Vogi segir að skoða þurfi betur hvers vegna svo sé en ljóst sé að þarna séu á ferðinni já­kvæðar fréttir. Ungt fólk í neyslu sé hins­vegar gjarnan í al­var­legri neyslu.

Greint var frá því í há­degis­fréttum Bylgjunnar í dag að inn­flutningur á kókaíni hefur aukist og neyslan þar með. Sex sitja nú í gæslu­varð­haldi vegna þriggja ó­líkra mála sem tengjast inn­flutningi.

Val­gerður Rúnars­dóttir for­stjóri og fram­kvæmda­stjóri lækninga á Vogi, ræddi málið í Reykja­vík síð­degis á Bylgjunni. Hún segir að stofnunin merki sömu aukningu í störfum sínum og lög­regla.

Verðkannanir á Vogi á fíkni­efnum hér á landi bendi til þess að litlar sveiflur séu á verði. Kókaín­neysla hafi aukist að undan­förnu eftir að hafa fallið í heims­far­aldrinum.

Margar á­stæður fyrir breytingum

„Það merki­legasta sem við sjáum í okkar tölum síðustu ár er þessi minni eftir­spurn ungs fólks eftir með­ferð, en það er dramatísk fækkun síðustu þrjú ár.“

Hvað segir það okkur?

„Það þarf auð­vitað að skoða það. Það eru margar á­stæður fyrir því. Þetta er mjög gott, þetta eru mjög já­kvæðar upp­lýsingar.“

Val­gerður segir að að­gengi að með­ferð fyrir 25 ára og yngri sé gríðar­lega gott á Vogi, sem sinni öllum í hópnum sem óski eftir því. Það þýði að færri séu að neyta efnanna.

Neyslan al­var­legri

„Hins­vegar ef við tökum fólkið sem kemur til okkar á þessum aldri, að þá eru ein­staklingarnir þar í mjög blandaðri og oft al­var­legri neyslu. Um það bil helmingur ein­stak­linga sem kemur er að nota kókaín og eins og hefur verið marg­um­talað, ópíóðana. Þeir eru í hæsta hlut­falli í þessum yngsta neyt­enda­hópi.“

Neyt­enda­hópurinn sé minni en áður og segir Val­gerður að Co­vid hafi þar haft mikil á­hrif. Þróunin sé hafi hins­vegar verið í þessa átt frá því um alda­mótin.

Á­fengið stærsta vanda­málið

Þú talar um minna að­gengi í heims­far­aldrinum. Kom eitt­hvað í staðinn?

„Já. Á­sókn í á­fengi hefur aukist og þá er það öðru­vísi að á­sókn í róandi lyf og þessi lög­legu vímu­efni líkt og á­fengi og ópíóða, hún jókst á þessum tíma.“

Hefur hlut­fall þeirra sem leita að­stoðar vegna á­fengis­neyslu minnkað á meðan hinn fjöldinn fer upp?

„Nei, það hefur það ekki. Það er enn­þá stærsta og al­var­legasta vanda­málið, það er á­fengið. Lang­flestir fá greiningu á á­fengis­fíkn þó þeir noti oft mikið önnur vímu­efni. Talandi um kókaín, lang­flestir sem koma til okkar og eru með kókaín­fíkn eru líka með á­fengis­fíkn. Sú neysla fer nú oft saman, á­fengi og kókaín, eins og örvandi efni önnur.“

Hún segir blandaða neyslu mjög al­genga, sér­stak­lega hjá yngri hópum. Þar séu neysla kókaíns, kanna­bis og á­fengis mjög al­geng. Miklu máli skipti að ná unga fólkinu með á­fengis­fíkn áður en það leiðist út í önnur efni.

„Já ég held að það sé fyrst og fremst lærdómurinn. Að grípa snemma inn í af því að það er þess virði að vera með snemminngrip í meðferð eða einhverskonar inngrip og aðgerðir strax og skoða áhættuhegðun hjá ungu fólki. Það skilar mestum árangri.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×