Innlent

Þriðjungur segist styðja ríkisstjórnina

Samúel Karl Ólason skrifar
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar.
Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Vísir/Vilhelm

Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur dregist lítillega saman, samkvæmt nýjasta Þjóðarpúls Gallup. Litlar breytingar hafa þó orðið á fylgi flokka undanfarinn mánuð.

Alls sögðust 33 prósent þeirra sem spurð voru í júlí styðja ríkisstjórnina, samanborið við 35 prósent í júní.

Samfylkingin mælist enn með mest fylgi og jókst það einnig lítillega milli mánaða. Fylgið mældist 28,4 prósent í júní en 28,6 prósent í júlí. Í kosningunum 2021 fékk Samfylkingin 9,9 prósent atkvæða.

Tveir af ríkisstjórnarflokkunum þremur bæta lítillega við sig fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21 prósent fylgi, samborið við 20,8 mánuði áður. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 24,4 prósent atkvæða. Framsókn mælist með 8,9 prósenta fylgi í júlí, samanborið við 8,7 prósent í júní en flokkurinn fékk 17,3 prósent atkvæða í kosningunum 2021.

Vinstri græn mælist með 6,1 prósenta fylgi en í júní var það 6,2 prósent. Í kosningunum fékk flokkurinn 12, 6 prósent.

Píratar mælast þriðji stærsti flokkurinn með 10,5 prósenta fylgi. Í júní var fylgið 9,7 prósent en flokkurinn fékk 8,6 prósent atkvæða í síðustu kosningum.

Þá mælist Miðflokkurinn með 9,5 prósenta fylgi og hefur aukið við sig um 0,7 prósentustig milli mánaða. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 5,5 prósent atkvæða. Viðreisn mælist með sjö prósent, Flokkur fólksins mælist með 5,7 prósent og Sósíalistaflokkurinn með 3,6 prósent.

Úrtak Gallup var 10.491 en þátttökuhlutfall var 46,1 prósent. Vikmörk á fylgi flokka eru 0,6 til 1,5 prósentustig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×