Innlent

Pysja föst við JL húsið: „Það vildu allir bjarga dýrinu“

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Pysjan festist milli steina en var þar ekki í morgun.
Pysjan festist milli steina en var þar ekki í morgun.

Lundapysja festist á milli steina við JL húsið í nótt. Gígja Sara Björnsdóttir sem fann dýrið veit ekki um afdrif þess en vonar að sagan hafi endað vel.

„Fólk er ótrúlegt. Það vildu allir bjarga dýrinu,“ segir Gígja sem starfar sem sviðshöfundur. En hún fann dýrið nálægt JL húsinu um klukkan tvö í nótt og reyndi að koma til bjargar.

Gígja segist aldrei hafa séð pysju og vissi ekkert hvernig ætti að bera sig að. En hún hafði heyrt að lundar leiti í ljós. Þessi fugl þurfti augljóslega að komast aftur á haf út. Vappaði pysjan að grjótgarðinum en festist þar á milli steina og lenti í sjálfheldu.

Hafði Gígja þá samband við lögreglumann sem reyndist vera frá Vestmannaeyjum og vildi hjálpa.

„Hann var yndislegur. Að fá símtal um nótt um pysju og drífa sig á stað,“ segir Gígja. Þegar lögreglumaðurinn kom var pysjan hins vegar komin enn þá lengra inn á milli steinanna og ekki tókst að ná henni út.

Einnig var haft samband við samtökin Dýrfinnu og Dýraþjónustu Reykjavíkur sem vildu hjálpa en akkúrat á þessum tíma var sprungið dekk hjá bíl Dýraþjónustunnar.

Morguninn eftir fór Gígja að athuga með pysjuna en þá var hún horfin. Hún sá aðeins blautan þara þar sem pysjan hafði setið föst nóttina áður. „Ég óska þess svo mikið að það hafi verið fallegur endir,“ segir hún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×