Innlent

Sex í gæslu­varð­haldi í tengslum við kókaín­inn­flutning

Árni Sæberg skrifar
Lögreglu hefur lagt hald á tæp sjö kíló af kókaíni.
Lögreglu hefur lagt hald á tæp sjö kíló af kókaíni. John Rensten/Getty

Á síðustu tveimur vikum hafa níu verið handteknir í tengslum við fjögur mál tengdum innflutningi á kókaíni. Sex sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málanna.

Fjögur mál tengd innflutningi á kókaíni eru til rannsóknar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Handtökur í málunum fóru fram í síðustu og þar síðustu viku á höfuðborgarsvæðinu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. 

Lögreglan naut liðsinnis sérsveitar ríkislögreglustjóra og tollgæslunnar í þessum málum. Ýmsum aðferðum var beitt við innflutning efnanna, meðal annars póst- og hraðsendingar sem og notkun burðardýrs.

Alls voru níu handteknir í þessum aðgerðum en sex sitja nú í gæsluvarðhaldi. Í aðgerðum var samtals lagt hald á tæp sjö kíló af kókaíni. Hinir handteknu eru bæði íslenskir og erlendir ríkisborgarar.

Ef marka má verðkönnun SÁÁ frá því í maí síðastliðnum má áætla að götuvirði sjö kílóa kókaíns sé um 115,5 milljónir króna.

Þrír í haldi vegna skútumálsins

Nóg virðist vera að gera hjá miðlægri rannsóknardeild en auk ofangreindra mála hefur deildin einnig til rannsóknar mál þar sem fíkniefni voru haldlögð í skútu fyrir utan Reykjanes.

Í tilkynningu segir að í því máli sitji enn þrír í gæsluvarðhaldi. Hingað til hefur ekki verið greint frá því hversu mikið magn fíkniefna var í skútunni en í tilkynningu segir að lögregla hafi lagt hald á tæplega 160 kíló af hassi.

Lögreglu grunar að hassið hafi verið flutt frá Danmörku og ætlaður áfangastaður hafi verið Grænland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×