Fótbolti

BBC baðst afsökunar á fúkyrðaflaumi í beinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Allysha Chapman var ekki sátt með tæklingu Hayley Raso í leik Ástralíu og Kanada.
Allysha Chapman var ekki sátt með tæklingu Hayley Raso í leik Ástralíu og Kanada. getty/Robert Cianflone

Breska ríkisútvarpið hefur beðist afsökunar á fúkyrðaflaumi sem heyrðist í beinni útsendingu frá leik Ástralíu og Ólympíumeistara Kanada á HM í fótbolta kvenna.

Ástralir unnu leikinn með fjórum mörkum gegn engu og tryggðu sér þar með sigur í B-riðli og sæti í sextán liða úrslitum.

Á 65. mínútu, í stöðunni 3-0 fyrir Ástralíu, braut hin ástralska Hayley Raso nokkuð harkalega á Kanadakonunni Allyshu Chapman.

Hún var ekki par sátt við þessa hörðu tæklingu og blótaði Raso í sand og ösku. Hörðustu sjóarar hefðu eflaust orðið stoltir af fúkyrðaflaumi hinnar 34 ára Chapman.

Áhorfendur BBC fengu blótsyrðin beint í æð enda nam hljóðnemi á hliðarlínunni þau. Robyn Cowen, sem lýsti leiknum, var fljót að biðjast áhorefndur afsökunar á fúkyrðaflaumi Chapmans.

Raso skoraði tvö mörk í leiknum í dag. Ástralía mætir liðinu sem endar í 2. sæti D-riðils í sextán liða úrslitum. Chapman og stöllur hennar eru hins vegar úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×