Fótbolti

Nákvæmari uppbótartími á Englandi

Árni Jóhannsson skrifar
Nú verður ekki hægt að tefja endalaust í enskum fótbolta
Nú verður ekki hægt að tefja endalaust í enskum fótbolta GETTY IMAGES

Knattspyrnusambandið á Englandi og samtök dómara þar í landi, PGMOL, hafa tilkynnt það að á komandi leiktíð verður tekið harðar á leiktöfum og reynt að hafa það þannig að boltinn verði sem mest í leik. Svipuð nálgun og hefur verið á undanförnum heimsmeistaramótum í knattspyrnu karla og kvenna þannig að þegar ekki er verið að spila fótbolta er þeim tíma bætt við uppbótartímann.

Þau atvik sem t.a.m. verður horft til þegar bæta á við nákvæmum tíma er þegar leikmaður meiðist og þarfnast aðhlynningar, fagnaðarlæti eftir skoruð mörk og innáskiptingar. Samtök dómara sögðu einnig að þegar vítaspyrna væri dæmd eða leikmaður væri rekinn af velli þá væri tíminn tekinn frá því að brot væri framið og þangað til að leikmaður væri kominn af velli eða að dómarinn væri búinn að flauta til að gefa til kynna að taka mætti vítaspyrnu. Hingað til hafi það verið einungis að nafninu til að samanlögðum tíma væri bætt við.

Þá verður bætt við boltum til að kasta inn á eins og við þekkjum hér á landi en það hefur sýnt sig að boltinn er meira í leik þar sem því nýtur við. Markmiðið með þessum breytingum er að fótboltinn fái að fljóta betur og að leikurinn verði betri fyrir augað en breytingarnar taka gildi frá og með fyrsta leik í ensku B-deildinni sem fram fer eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×