Fótbolti

Allt í steik hjá Noregi og stjarnan brjáluð: „Verið traðkað á mér í heilt ár“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caroline Graham Hansen er í fýlu.
Caroline Graham Hansen er í fýlu. getty/Ulrik Pedersen

Þrátt fyrir að hafa á að skipa öflugu liði er Noregur enn án sigurs á HM. Það sem meira er virðist allt vera í steik í herbúðum liðsins.

Noregur gerði markalaust jafntefli við Sviss í A-riðli heimsmeistaramótsins. Norðmenn eru með eitt stig á botni riðilsins og eiga á hættu að komast ekki í sextán liða úrslit HM.

Caroline Graham Hansen, sem leikur með Evrópumeisturum Barcelona og þykir einn besti leikmaður heims, byrjaði á varamannabekknum í gær, henni til lítillar gleði. Og á blaðamannafundi eftir leikinn lét hún allt flakka.

„Þetta er erfitt. Ég veit ekki hvað ég get sagt. Það er ekki margt. Það er eins og ég standi hér með hendur bundnar fyrir aftan bak,“ sagði Hansen.

„Það hefur verið traðkað á mér í heilt ár. Allir segja að við þurfum að standa saman sem lið og þjóð en ég hef ekki fengið sanngjarna meðferð.“

Hansen er ekki mikill aðdáandi Hege Riise, þjálfara norska landsliðsins. Eftir að hún var ráðin sem landsliðsþjálfari tók Hansen sér frí frá landsliðinu. Hún sneri hins vegar aftur í það fyrir HM.

Hansen var í byrjunarliðinu þegar Noregur tapaði fyrir Nýja-Sjálandi, 1-0, í fyrsta leik sínum á HM en var svo sett á bekkinn ásamt samherja sínum hjá Barcelona, Ingrid Syrstad Engen, og Manchester City-konunni Julie Blakstad.

Noregur mætir Filippseyjum í lokaumferð riðlakeppninnar á HM og verður að vinna til að eiga möguleika á að komast áfram í sextán liða úrslit.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×