Fótbolti

Telja að Barcelona-stjörnur Noregs verði bekkjaðar gegn Sviss

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caroline Graham Hansen átti ekki sinn besta dag gegn Nýja-Sjálandi.
Caroline Graham Hansen átti ekki sinn besta dag gegn Nýja-Sjálandi. Luis Veniegra/Getty Images

Eftir óvænt tap gegn Nýja-Sjálandi í fyrstu umferð HM kvenna í knattspyrnu virðist Hege Riise, þjálfari norska landsliðsins, ætla að sýna hver ræður og bekkja tvær af helstu stjörnum Noregs.

Það er alltaf erfitt að mæta heimaþjóð í fyrstu umferð stórmóts en samt sem áður var búist við því að Noregur myndi vinna Nýja-Sjáland og það jafnvel nokkuð örugglega. Noregur er sem stendur í 11. sæti heimslista Alþjóðaknattspyrnusambandsins á meðan Nýja-Sjáland er í 22. sæti.

Norska liðið er stútfullt af hæfileikaríkum leikmönnum. Má þar nefna:

  • Tuva Hansen (Bayern München)
  • Maren Mjelde (Chelsea)
  • Guro Reiten (Chelsea)
  • Frida Leonhardsen-Maanum (Arsenal)
  • Ingrid Syrstad Engen (Barcelona)
  • Caroline Graham Hansen (Barcelona)
  • Ada Hegeberg (Lyon)

Það breytti því ekki að Nýja-Sjáland var betri á öllum sviðum þegar liðin mættust og vann á endanum sannfærandi 1-0 sigur.

Riise er vægast sagt ósátt með frammistöðu síns liðs og ætlar að hrista upp í liðinu gegn Sviss á morgun. Samkvæmt heimildum NRK, norska ríkisútvarpsins, munu þær Ingrid Syrstad Engen og Caroline Graham Hansen byrja leik morgundagsins á bekknum.

Noregur verður að vinna Sviss eða hið minnsta ná í stig ætli liðið sér að eiga möguleika á að komast upp úr riðlinum og í 16-liða úrslit heimsmeistaramótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×