Barmur gígsins gaf sig til norðurs á tólfta tímanum í dag með þeim afleiðingum að gígurinn tæmdist niður á sléttuna. Atvikið má sjá í myndskeiði úr vefmyndavél Vísis hér að neðan:
„Það er bara viðbúið. Hann lokar sér og svo safnast kvika í hann. Hún er náttúrulega langt fyrir ofan yfirborðið af því að götin út úr honum eru of lítil, þá safnast upp í honum. Það sem gerist núna á meðan hann er að þessu þá byggir hann upp í kringum sig og hann hækkar og hækkar. Þessi hraun komast ekkert svo langt af því að þau fara fyrir utan meginhraunstrauminn, sem þýðir að þau þurfa að búa til nýtt flutningskerfi. Það er bara meira en að segja það,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur í samtali við Vísi.
Svæðið fullt af fólki í gær
Ármann segir að síðast í gær hafi mikill fjöldi fólks verið á sléttunni norður af gígnum, sem fór undir hraun í morgun. Lögreglan hafi þó lokað því svæði fyrr en gosstöðvunum almenn í gær og rýmt það. Því hafi engin raunveruleg hætta verið á ferð.
„Ekki nema einhver glópur hefði verið þarna inni. Engir lögreglu- eða björgunarsveitarmenn eru inni á hættusvæði, af því að við erum ekki að stofna þeim í hættu.“
Þá segir hann að hraunflæðið í gær undirstriki mikilvægi þess að fólk fari varlega og hlýði fyrirmælum yfirvalda á svæðinu.
Mun hækka og hækka
Ármann segir að þegar gígbarmurinn brestur styrki gígurinn undirstöður sínar til lengri tíma og því geti hann hækkað meira áður en hann brestur næst. Þannig gæti gígurinn orðið mjög stór ef gosið heldur áfram í lengri tíma. Það hafi til að mynda gerst í eldgosinu í Geldingadölum, þar sem finna má myndarlegan gíg.
Vefmyndavél Vísis á gossvæðinu má sjá hér að neðan: